Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

49. fundur
Mánudaginn 09. nóvember 1992, kl. 15:34:23 (1997)

     Guðni Ágústsson (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Ekki skal ég hafa á móti því að þeir stjórnarliðar sem eru á mælendaskrá fái að tjá sig ef þeir vilja það. ( SvG: Þeir eru ekki stjórnarliðar.) Voru það ekki stjórnarliðar? ( SvG: Stjórnarmenn í Atvinnuleysistryggingasjóði. Annar er stjórnarliði en hinn stjórnarandstæðingur.) Ef þeir kjósa svo mega þeir það mín vegna. Ég kýs að fresta minni ræðu þar til ráðherrar verða við.
    Af því að hæstv. utanrrh. var að ræða um eitthvað í einlægni ætla ég að segja honum það í einlægni að þessi ríkisstjórn er nú komin á tólftu klukkustund og senn falla vísarnir. Það verður engin einlægni í viðræðum við þessa ríkisstjórn eftir að þessi mánuður er liðinn ef ekkert hefur gerst í atvinnumálum og atvinnuleysismálum Íslendinga. Ábyrgðin er þessarar ríkisstjórnar og á henni verður tekið af enn meiri hörku í jólamánuðinum en nú hefur verið gert. Vísarnir eru að falla, hæstv. utanrrh.