Vegáætlun 1992

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 14:09:00 (2011)

     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Það er vissulega ástæða til þess að fagna því átaki til atvinnuaukningar sem hæstv. ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir með því að veita auknu fé til vegamála í landinu. Það fer ekkert á milli mála að með þeirri ákvörðun og þeirri tillögu ríkisstjórnarinnar sem við erum að ræða hluta af í dag er verið að byrja að taka myndarlega á máli sem mikil nauðsyn hefur verið á þ.e. að auka fé til vegamála og sérstaklega til einstakra verkefna sem einstök kjördæmi hafa verið í miklum vandræðum með.
    Menn hafa velt því fyrir sér hvort átak til atvinnuaukningar sé réttmætt nafn á auknu fé til vegamála. Menn hafa sagt sem svo: Það er hægt að benda á að hægt sé að auka atvinnu með ýmsum öðrum hætti, kannski með áhrifameiri hætti. Ég held að í þessu felist nokkur misskilningur því að ávinningurinn af því að veita auknu fé til vegamála er í raun og veru tvenns konar. Í fyrsta lagi eykst atvinna á meðan verið er að vinna að vegagerðinni. Í öðru lagi hitt, sem skiptir auðvitað mjög miklu máli, að með því að tengja saman byggðir, sem er yfirlýstur tilgangur þeirrar fjárveitingar sem hér er verið að leggja til, munu eðli málsins samkvæmt verða til aukin atvinnutækifæri, ekki síst í dreifbýlinu þar sem þeirra er þörf.
    Vegna þess að menn eru auðvitað ekki bara að ræða þessa tillögu eins og hún birtist hér í efnisatriðum, menn eru auðvitað að ræða þetta mál í víðara samhengi, samhengi við átak til atvinnuaukningar sem ríkisstjórnin hefur kynnt, þá finnst mér aðalatriði þessa máls vera það að með því að veita nú svo miklu fé til þess að hraða vegagerð í landinu, þá skapist nýtt svigrúm fyrir kjördæmin í landinu til þess að ráðast í verkefni sem hafa verið þeim gersamlega ofviða. Ég tek sem dæmi þau verkefni sem lagt er til að farið verði í á Vestfjörðum, þ.e. vegskáli við Óshlíð og áframhald framkvæmdanna um Hálfdán milli Bíldudals og Tálknafjarðar. Það fer auðvitað ekkert á milli mála að með því að fara í þau verkefni er verið að leysa gríðarlega mikil og aðkallandi vandamál og ekki síður hitt að það hefur blasað við að í einstaka kjördæmum, eins og Vestfjarðakjördæmi, hefur það verið einfaldlega þannig að kjördæmin hafa verið í hreinustu vandræðum með að ráða við þessi stóru verkefni af sínu takmarkaða fé. Þá hefði einu gilt þó að um hefði verið um að ræða örlítið meiri fjárveitingar í einstök kjördæmi. Það hefði einfaldlega ekki dugað. Sannleikurinn er sá að það þurfti stórt og mikið átak af þessu taginu til þess að við réðum við þessi verkefni í okkar kjördæmum. Þetta á ekki bara við um Vestfirði. Mér er kunnugt um að svipað hefur verið uppi á teningnum annars staðar.
    Það sem mér hefur fundist hvað athyglisverðast í þessari umræðu hingað til er það að menn hafa ekki gagnrýnt að aukið skuli fé til vegamála. Menn hafa allir eða flestir sagt sem svo: Það í sjálfu sér er gott. Ég hef líka hlustað af mikilli athygli eftir því hvort fram hafi komið í málflutningi hv. þm. ábendingnar um önnur verkefni en hæstv. ríkisstjórn hefur lagt til. Það hefur heldur ekki komið fram. Menn hafa með öðrum orðum ekki verið að ræða þessa tillögu efnislega. Menn hafa fremur verið að ræða, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, um aðferðina.
    Nú blasir það hins vegar við að inn á borð Alþingis er komin tillaga ríkisstjórnarinnar. Hér er því fullnægt þeirri athugasemd um formið sem hefur verið rauði þráðurinn í umræðum manna í dag. Ég vona þess vegna að við getum fremur farið að snúa okkur að því verkefni að fjalla efnislega um þessa merku tillögu sem ég hef miklar mætur á eins og hefur komið fram í máli mínu.
    Ég vil í þessu sambandi nefna úr því að hv. 3. þm. Vesturl. nefndi það að auðvitað er rétt að ríkisstjórnin hefur gert ráð fyrir því að rekstur flóabáta og ferja kæmi inn á vegaféð. Ég er alveg sammála hv. þm. um það að þegar og ef sú ákvörðun verður tekin verða menn auðvitað að gæta afskaplega vel að því að staðið verði að því með þeim hætti að Vegagerðinni verði séð fyrir sómasamlegu rekstrarfé til þess að annast rekstur þessara skipa. Það hefur verið gert ráð fyrir því að sérstök aukning væri á tekjum Vegasjóðs til þessa rekstrar. Eftir upplýsingum sem ég hef aflað mér má búast við því að tekjur Vegasjóðs muni jafnframt aukast af öðrum ástæðum. Ég held að þegar menn fara í alvöru að ræða þetta mál sérstaklega verði að fara mjög nákvæmlega ofan í það hver kostnaður ferja og flóabáta verður þegar að því máli kemur og átta okkur á hverjar tekjur Vegasjóðs verða síðan til að standa straum af þessu. Það gengur auðvitað ekki að við skrifum upp á þetta eins og óútfyllta ávísun í þeim skilningi að við vitum ekki nákvæmlega hver kostnaðurinn af rekstri flóabáta og ferja verður. Ég óttast í þessu sambandi að ekki séu öll kurl komin til grafar og þess vegna verðum við að fara af mjög mikilli gætni í þessi mál.
    Ég vek athygli á því að í fjárln. Alþingis var óskað eftir upplýsingum um það hver heildarkostnaðurinn væri nú orðinn við kaupin á Herjólfi og smíði bryggjanna í tengslum við það skip. Þá kom þar

fram að sem betur fer hafi uppgjörið við skipasmíðastöðina gefið til kynna að smíðin á skipinu hefði verið öllu ódýrari en upphaflegur samningur hljóðaði upp á. Engu að síður þegar við leggjum saman kostnaðinn við smíði skipsins að viðbættum öðrum kostnaði vegna hönnunar, eftirlits, stjórnunar og ýmsum stofnkostnaði, heimsiglingu, olíu og vaxta á smíðatíma, sem sjálfsagt er að taka með í reikninginn, er heildarkostnaðurinn lauslega áætlaður um 1.370 millj. kr. Til viðbótar þessu er síðan kostnaður vegna hafnargerðar í Þorlákshöfn 155,9 millj. kr. og vegna Vestmannaeyjahafnar 95,4 millj. kr. Ég ætla ekki að gagnrýna þetta. Það dettur mér ekki í hug. En það sem ég vil hins vegar leggja áherslu á er það að þessi kostnaður upp á samtals 1.621,3 millj. kr. verður auðvitað ekki lagður á Vegasjóð án þess að við gerum ráð fyrir því að hann hafi auknar tekjur til þess að standa straum af þessu. (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu ekki, hv. 4. þm. Norðurl. e. Þú veist auðvitað sjálfur að það stendur ekki til. Ég var aðeins að vekja athygli á því hver þessi kostnaður væri og ég sundurliðaði hann eins og þú heyrðir sjálfur þannig að þetta frammíkall var tilefnislaust. Aðalatriðið er sem sagt að það verður að sjá fyrir þessu öllu saman og skoða allt saman í heild sinni. Að öðru leyti dreg ég saman mál mitt með því að segja að ég er afskaplega ánægður með þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að auka fé til vegamála og tel að það sé í eðli sínu gott vegna þess að að skapar atvinnu til lengri og skemmri tíma.