Vegáætlun 1992

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 14:20:09 (2013)

     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég lít svo á að það hafi verið tvær fyrirspurnir sem hv. þm. beindi til mín. Í fyrsta lagi það hvort þau lán sem tekin verða til þess að standa straum af þessari hröðrun á framkvæmdum verði greidd af framtíðinni. Ég geri ráð fyrir því að það verði þannig með þessa lántöku eins og aðrar lántökur til vegamála að hún verði greidd af framtíðinni. Það er viðurkennd aðferð og ég á ekki von á því að það verði mikil breyting á því í sjálfu sér.
    Í öðru lagi var spurt hvort það hafi verið risarnir í verktakabransanum sem hafi ýtt á menn að hraða vegamálunum. Mér finnst það ekki skipta neinu máli hvort það hafi m.a. verið vegna þrýstings til að mynda frá verktakasambandinu eða öðrum ágætum mönnum sem þessi ákvörðun var tekin. Aðalatriðið er að þessi ákvörðun var tekin og ég tel að það sé bara af hinu góða að starfsmenn risanna í verktakabransanum eins og annars staðar fái vinnu.