Vegáætlun 1992

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 14:24:14 (2017)

     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Eins og ég hygg að hv. 3. þm. Vesturl. hafi mætavel verið ljóst, þá ræddi ég alltaf um það í minni ræðu að verið væri að flýta þessum framkvæmdum. Auðvitað hefur það legið fyrir frá upphafi hvernig að fjármögnuninni var staðið. Það er í sjálfu sér ekki neitt nýtt. Ég sýndi hins vegar fram á það í umræðum um vegáætlun sl. vor að þrátt fyrir allt tal manna um niðurskurð lægi það fyrir að hæstv. samgrh. gæti verð fullsæmdur af hlut vegamála bæði í þjóðarframleiðslunni og í samanburði við fyrri ár. Það stendur óbreytt. Ef menn skoða samanburðartölur um framlög til vegamála fyrir næsta ár liggur það fyrir að það ár mun auðvitað skera sig úr. Þrátt fyrir það að auðvitað liggi fyrir að hér sé um að ræða lán sem væntanlega verður greitt á löngum tíma, eins og er gjarnan um lán af þessu taginu, verður næsta ár ár mjög mikilla framkvæmda í vegamálum. Það er auðvitað það sem öllu máli skiptir og ég held að við ættum fremur að lýsa fögnuði okkar yfir því en að hnotabítast um atriði sem lýtur að forminu þegar þetta mál er komið hér inn í sali Alþingis.