Vegáætlun 1992

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 14:26:46 (2019)

     Kristinn H. Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Það er með ólíkindum hvað hæstv. ríkisstjórn er umhugað um að ráðast á vegáætlun sem samþykkt var vorið 1991 með samhljóða atkvæðum í Alþingi og stuðningi allra þingflokka. Það byrjaði strax eftir kosningar þegar hæstv. samgrh. tók sér löggjafarvaldið og sendi hv. þm. lista yfir það sem hann hefði ákveðið að skera niður. Hann fékk að sjálfsögðu miklar þakkir fyrir frá stjórnarliðum öðrum en hv. 1. þm. Vestf. sem þótti þetta lögbrot. En eins og menn vita er hann búinn að vera nokkuð lengi á þingi og er kannski fastur í gömlum hefðum og ekki farinn að læra hina nýju siði Sjálfstfl. og hvar löggjafavaldið liggur.
    Síðan var ráðist á vegáætlun annað sinn þegar árið 1992 var tekið út sérstaklega og nú er í þriðja sinn lögð til breyting og í annað skipti sem menn breyta árinu 1992.
    Ráðherra hefur ekki haft fyrir því að láta fylgja með þessari áætlun eða ályktun þær tillögur sem ríkisstjórnin samþykkti um verkefni á næsta ári. Það kemur hvorki fram né heldur útlistun á því hvaða verkefni af þeim eru ný og ekki á vegáætlun eða hver þau eru. Ég hef ekki séð þennan lista nema í fjölmiðlum og kannski er það framtíðin undir stjórn Sjálfstfl. í samgöngumálum að þingmenn eigi að frétta af ákvörðunum ríkisstjórnarinnar í gegnum Morgunblaðið. Ég hef haldið að fram til þessa væri venjan sú að ráðherra talaði við þingið og leitaði heimilda hjá því. Síðar er upplýst af öðrum ráðherra að hér sé ekki um að ræða neina aukningu. Jafnvel þótt hv. 3. þm. Vestf. hafi verið mjög kátur í ræðustól og talað um aukningu vegafjár, þá er það upplýst að ekki er um neina aukningu að ræða heldur verður fjármagn til að mæta þeim framkvæmdum sem flýtt er tekið af vegáætlun sjálfri á seinni árum. Niðurstaðan er því einfaldlega sú að það er verið að færa til fé milli ára og í öðru lagi er verið að færa til fé á milli verkefna. Það er verið að setja önnur verkefni fram fyrir þau sem áður voru ákveðin og eru í núgildandi þingsályktun og verið að taka ný verkefni inn sem ekki eru til í vegáætlun.
    Stjórnarliðar eru mjög kátir. Þeir eru svo kátir yfir því að þurfa sennilega ekki lengur að sitja yfir því í þingmannahópum kjördæmanna að taka ákvörðun um það hvernig á að skipta fé til vegaframkvæmda í kjördæminu. Ég dreg ekki aðra ályktun af kæti stjórnarliða en þá að þeir hafi verið með í ráðum ríkisstjórnarinnar við ákvörðun á þessu verkefni. Af þessu verður ekki önnur ályktun dregin en sú að þingmenn stjórnarliðsins í einstökum kjördæmum hafi tekið upp þann sið að ætla sjálfir að stýra því í hvaða verkefni fé verði veitt. Stjórnarandstöðuþingmönnum í kjördæmunum kemur það ekkert við. Það eru skilaboð stjórnarþingmanna og ráðherra til stjórnarandstæðinga. Nú er verið að slíta í sundur þann frið sem hefur verið um skiptingu vegafjár á Alþingi fram til þessa og það er Sjálfstfl. sem hefur forgöngu um það undir forustu hæstv. samgrh. en hann tekur öðrum fram í kjördæmapoti og þykir það ekki fínt í hans flokki, alla vega ekki á höfuðborgarsvæðinu.
    Mig undrar að ungir og kappsfullir menn skuli lýsa yfir fögnuði með þessa breytingu. Hvað sem framtíðin ber í skauti sér er ljóst að menn hljóta að hafa þetta í huga þegar vindar í stjórnmálum breytast. Sjálfstfl. getur ekki treyst því að vera ávallt í ríkisstjórn og það styttist í að hann víkur þaðan. Þeir eru kannski að biðja um að þeir verði ekki hafðir með í ráðum þegar kemur að því að þeir verði í stjórnarandstöðu. Hvort sem það verður eða ekki, eru vinnubrögð þeirra þannig að þau verðskulda ekki önnur viðbrögð af okkar hálfu.
    Hitt er ekki víst að menn sýni sömu framkomu og þeir sem að þessu máli standa að hálfu ríkisstjórnarinnar og sýnir meiri þroska í störfum þingsins.
    Um þessi verkefni vil ég segja að í sjálfu sér er það þannig í þjóðfélagi sem býr við mikið vegakerfi og mörg óunnin verkefni að menn fagna því sem gert er og ég hygg að segja megi að öll verkefni séu þörf. En málið snýst ekki um það heldur hitt að við höfum takmarkað fé til ráðstöfunar, við höfum minna en við viljum og verðum að deila því út, verðum að velja og hafna. Það er alvarlegt þegar menn rífa það upp sem áður er búið að semja um.
    Ég nefni brúargerð sem dæmi. Í langtímaáætlun sem lögð var fyrir þingið og í bærilegu samkomulagi allra þingflokka var dregin upp sú áhersluröð að tvö næstu stórverkefni í brúargerð hér á landi yrðu yfir Kúðafljót og yfir Gilsfjörð. Í núgildandi vegáætlun og í langtímaáætlun þeirri sem lögð var fram og tekur við af henni er ljóst að brúin yfir Gilsfjörð er síst á eftir brúnni yfir Kúðafljót. Þegar lagt er til að taka brúna yfir Kúðafljót, sem er þarft verk og gott, en boðað jafnframt að önnur verkefni verði skorin niður, þá spyr ég: Hvað verður um brúna yfir Gilsfjörð?
    Hæstv. ráðherra hafði ekki fyrir því að segja okkur hvað hæstv. ríkisstjórn hafði ákveðið að skera niður á móti þeim verkefnum sem hún mun taka inn ný. Maður hlýtur að spyrja um það sem mér þykir vera hættulega nærri: Er það ákvörðun stjórnarflokkanna að ýta brúnni yfir Gilsfjörð aftur fyrir?
    Við þessu verður að fá svör. ( Forseti: Hv. þm. hefur lokið þeim tíma sem hann hefur til umráða.) Það var skaði, virðulegi forseti, ég á nefnilega töluvert eftir. ( Gripið fram í: Þú biður bara um orðið aftur.) Ég tek þeirri ábendingu og bið um orðið aftur, ég má tala tvisvar í þessari umræðu og læt þessu lokið.