Vegáætlun 1992

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 14:38:11 (2021)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ekki ferst hv. 1. þm. Vesturl. vel vörnin. Skorað hefur verið á hann ásamt öðrum þingmönnum Vesturl. og Vestf. að standa vörð um vegáætlun hvað varðar Gilsfjarðarbrú. Hann upplýsti ekkert um áform ríkisstjórnarinnar hvað þá framkvæmd varðar. Spurningin sem ég beini til stjórnarþingmanna úr þessum tveimur kjördæmum er: Hvað sömdu þessir þingmenn um Gilsfjarðarbrú? Sömdu þeir hana aftur fyrir aldamót?
    Varðandi Skipaútgerð ríkisins bendi ég hv. þm. á að í landsfundarsamþykkt Sjálfstfl. stendur ,,að tryggt verði að afskekkt byggðarlög fái flutningaþjónustu þótt hún verði að vera niðurgreidd. Setja þarf ákveðin takmörk á flutningaþjónustu ríkisins.`` --- Hvað er að gerast nú í afskekktum byggðarlögum eins og í Árneshreppi á Ströndum, á Bíldudal og Suðureyri? Þessi byggðarlög fá enga skipaþjónustu og verða að borga hærra verð en önnur byggðarlög fyrir flutninga. Það er skattur sem núverandi ríkisstjórn er að leggja á íbúa í afskekktum byggðarlögum. Staðhæfingar mínar við afgreiðslu frv. um Skipaútgerð ríkisins hafa því miður allar gengið eftir.