Vegáætlun 1992

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 14:41:37 (2024)

     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er nauðsynlegt að leiðrétta þrjú atriði í málflutningi hv. 5. þm. Vestf., Kristins H. Gunnarssonar.
    Í fyrsta lagi er samkvæmt núgildandi vegáætlun ekki búist við að fara af fullum krafti í Gilsfjörð á þessu áætlunartímabili. Ef litið er á stór verkefni, stórbrýr, eins og vegáætlun liggur nú fyrir er gert ráð fyrir 22 millj. á árinu 1993 og 38 millj. á árinu 1994, sem ekki hrekkur til þess enda er undirbúningur þess verks ekki svo langt kominn að unnt sé að bjóða það út á næsta ári. Þannig að það mál hefur ekki verið inni í myndinni.
    Í öðru lagi er það misskilningur hjá hv. þm. að minna fé hafi verið varið til vegamála á þessu ári en á þremur síðustu árum. Ef við tökum tölur á áætluðu verðlagi 1993, vísitala 4740, var það svo að á árinu 1989 var 5 milljörðum 223 millj. varið til vegagerðar, 5 milljörðum 225 millj. á næsta ári, árið 1991 5 milljörðum 401 millj. og á þessu ári 5 milljörðum 677 millj. kr. Hér er því vöxtur. Ef við berum saman nýja þjóðvegi, fóru í þá á sl. ári 2 milljarðar 449 millj. en á þessu ári 2 milljarðar 588 millj.
    Í þriðja lagi er það misskilningur hjá hv. þm. að langtímaáætlun sé í gildi. Engin langtímaáætlun er í gildi og lá fyrir að það var uppi skoðunarmunur um hana eins og hún var lögð fram, m.a. í mínu kjördæmi.