Vegáætlun 1992

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 14:43:28 (2025)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það þýðir ekki fyrir hæstv. ráðherra að deila um það að framlög til vegamála á árinu 1992 voru skorin niður frá vegáætlun sem samþykkt var með atkvæðum Sjálfstfl. ári áður. Það þýðir heldur ekki fyrir hæstv. samgrh. að deila um það að sem hlutfall af þjóðarframleiðslu hafa framlög til vegamála minnkað í tíð núv. ríkisstjórnar, eftir að hafa vaxið í tíð fyrrv. ríkisstjórnar frá árinu 1987.
    Í þriðja lagi eru framlög til Gilsfjarðar meiri en hæstv. ráðherra las upp á núgildandi vegáætlun fyrir árin 1991--1994.
    Í fjórða lagi bendi ég ráðherranum á að þó langtímaáætlun hafi ekki verið samþykkt hefur verið unnið samkvæmt henni því það hefur verið samstaða um hana í öllum meginatriðum. Ég bendi ráðherranum einnig á að samkvæmt þáltill. um langtímaáætlun í vegagerð sem lögð var fram í þinginu átti að verja 330 millj. kr. til Gilsfjarðar á fyrsta og öðru tímabili vegáætlunarinnar, 1991--1994 og 1994--1998, en til Kúðafljóts 180 millj. kr. Allur áhersluþunginn í þessum framkvæmdum var því á Gilsfjarðarbrú þó meiningin væri að taka bæði verkin samhliða. Ég geri ekkert lítið úr Kúðafljótsbrúnni eins og komið hefur fram hjá mér áður, en ég mótmæli því og vænti þess að það sé ekki sá ágreiningur sem hæstv. samgrh. var að tala um, þ.e. að ágreiningur eigi að vera um Gilsfjarðarbrú, ekki nema að það hafi verið hæstv. samgrh. sem gerði þann ágreining. Kannski hefur það verið.