Vegáætlun 1992

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 15:30:02 (2047)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Auðvitað alveg ljóst að það sem hér er að gerast er að hæstv. samgrh. er að reyna að bjarga sér í land með flutningi þessarar sérkennilegu þáltill. um breytingu á vegáætlun sem er einsdæmi í sögunni fullyrði ég. Ég man aldrei eftir slíku plaggi áður á þingi og mér er nær að halda að ég geti fullyrt að þó farið væri áratugi aftur í tímann þá fyndu menn ekki sambærilegan pappír.
    Það er út af fyrir sig rétt að á meðan menn verjast því að til beinna útgjalda sé stofnað og svo lengi sem menn afla þó seint sé samþykkis Alþingis fyrir nýrri framkvæmdaröð getur það gengið, en ég held að öllum hv. alþm. sé ljóst að hér er ekki unnið að hlutunum í samræmi við þær reglur, þau lög og lagafyrirmæli sem í gildi hafa verið. Það er verið að reyna að gera þennan verknað löglegan eftir á. Það er út af fyrir sig betra seint en aldrei. En ég hygg að hv. alþm. hljóti að upplifa sig dálítið úti í horni og upp við vegg þegar búið er að bjóða út verulegan hluta þeirra verka sem hæstv. ríkisstjórn ákvað við sitt borð að skyldu unnin í vegamálum á næstu árum í staðinn fyrir að þau kæmu til umfjöllunar á Alþingi. Venjan hefur verið, eins og menn þekkja, að vegáætlun er lögð fram sem rammaáætlun með niðurstöðutölum og ekkert einasta verk sundurgreint. Það er í meðförum Alþingis sem skipting niður á einstök verk kemur. 10. gr. vegalaganna er alveg skýr að svo skuli vera.
    Varðandi viðskilnað síðustu ríkisstjórnar í ferjumálum vísa ég því til hv. 3. þm. Suðurl. að svara t.d. þeirri spurningu hvort það hafi verið vond og vitlaus ákvörðun að endurnýja Herjólf.