Vegáætlun 1992

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 15:34:54 (2049)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég leiði hjá mér persónuleg svigurmæli hæstv. samgrh. í minn garð en held mig við efni málsins. Það er út af fyrir sig alveg hárrétt að breyta þarf vegáætlun og þessi örk er ný lítil vegáætlun í sjálfu sér. Stjórnskipulega hlýtur það að vera þannig. Ég þarf því ekkert að draga til baka það sem ég sagði, en hún er örugglega sú þynnsta í sögunni. Ég hef aldrei séð svona þunnt eintak af vegáætlun.
    Það er ekki verið að deila um það, hæstv. samgrh., okkur er ljóst að það þarf bæði lagaheimildir fyrir útgjöldunum og breyta þarf vegáætlun. Það er betra, eins og ég sagði áðan, þó seint sé að nú hefur hæstv. samgrh. áttað sig á því og er að reyna að bjarga sér í land eftir á. Hann áttar sig á því að sá framgangsmáti sem ríkisstjórnin ætlaði að viðhafa í byrjun gengur ekki og er þess vegna að koma með málin inn til samþykktar Alþingis eftir á þó seint sé.
    En vinnubrögðin eru jafnóskemmtileg eftir sem áður. Ég vil leyfa mér að vitna í það sem hv. þm. Pálmi Jónsson sagði á Alþingi 1989 við kringumstæður sem hann taldi sambærilegar, þ.e. að úti í bæ væri verið að breyta áður teknum ákvörðunum Alþingis á óeðlilegan hátt. Þá sagði hv. þm., með leyfi forseta:

    ,,Ég tel það vitaskuld afar einkennilega að verki staðið, að maður taki nú ekki sterkar til orða, og afar óviðfelldið að um leið og verið er að taka ákvarðanir um að auka útgjöld ríkisins umfram það sem fjárlög kveða á um skuli á sama tíma verið að kippa til baka ýmsu af því sem Alþingi taldi við afgreiðslu fjárlaga og afgreiðslu vegáætlunar vera nauðsynjaverk í framkvæmdum og hefur samþykkt og ætlar síðan að kippa því til baka á síðustu mánuðum ársins og vera búið með allra handa baktjaldavinnubrögðum að hindra það að þær framkvæmdir fari í gang og koma þannig alveg í bakið á ákvörðun Alþingis við afgreiðslu mála á þessu ári.``
    Þarna var hv. þm. Pálmi Jónsson að verja þann stjórnskipulega rétt og það vald sem Alþingi hefur í þessum málum. Í vegamálunum er sá réttur óvenjuskýr vegna þess að til viðbótar fjárlögum og reglum um greiðslur úr ríkissjóði koma ákvæði vegalaga sem styrkja enn stöðu Alþingis í þessu sambandi.