Vegáætlun 1992

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 15:38:04 (2051)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það var misskilningur eða misheyrn hjá hv. 3. þm. Suðurl. að ég hafi verið að hnýta í þingmenn Sunnlendinga. Ég leyfði mér ósköp einfaldlega að nefna Suðurlandskjördæmi sem dæmi. Það voru reyndar fleiri kjördæmi en ég hygg að það sé ekki á neinn hallað þó ég segi eða fullyrði að Suðurlandskjördæmi hafi verið komið í einna erfiðasta stöðu um tíma vegna skulda þegar lokið var þar, eins og ég réttilega nefndi, brýnum verkefnum, bæði Óseyrarbrú og Mýrdalssandi, tekin umtalsverð lán til þess að ljúka þeim framkvæmdum sem voru mjög sterk rök fyrir. Það leiddi hins vegar til þess, hv. þm., að skuldastaða kjördæmisins varð mjög erfið um skeið. Það vill svo til að þegar ég kom að því að fara með forsjá samgöngumála stóð einmitt þannig á. Ég átti fundi með Vegagerðinni og þingmönnum Suðurlands út af því máli og það var sett upp ákveðin áætlun um það hvernig væri unnt að ná niður skuldum Suðurlandskjördæmis og reyndar fleiri kjördæma á ákveðnu árabili, m.a. með því að setja sérstakar reglur um þessar lántökur af því að menn áttuðu sig á því þá, eins og menn gera vonandi núna, að það er skammgóður vermir að skuldsetja sig of mikið í þessum efnum. Þá hleðst upp fjármagnskostnaður og það verður óskaplega lítið spennandi fyrir þá sem koma að málum þegar kemur að skuldadögunum að þurfa að sjá stóran hluta tekna hvers árs fara beint í endurgreiðslur á eldri lánum. Það verður svo lítið spennandi. Það verður miklu minna gaman að koma sem samgrh. í þennan ræðustól árið 1995 og verja það að af tekjum vegáætlunar það ár fari kannski rúmlega 1 / 2 milljarður í rekstur á ferjum og nokkur hundruð milljónir í endurgreiðslur af lánum. Þá verður að vísu örugglega annar hæstv. ráðherra en sá sem nú er. Engu að síður ber ég svo mikla umhyggju fyrir þessum samgrh. framtíðarinnar að ég leyfi mér að viðhafa þessi orð hér hver sem hann verður. Það er nefnilega þannig að lán hafa haft þá náttúru, alveg frá dögum talentnanna, að þau þarf að endurgreiða. Það kemur að skuldadögum.