Vegáætlun 1992

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 15:40:27 (2052)

     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Ég bar fram þá ósk við þann forseta sem þá sat í forsetastól að hér yrði frestað umræðu þar til hæstv. félmrh. kemur til þings. Mér skilst að hann sé á Vestfjörðum, fjarri höfuðborgarsvæðinu. Ég hef beðið um orðið aftur í almennu umræðunni og hefði mjög gjarnan viljað að umræðunni yrði frestað áður vegna þess að það er, eftir því sem ég best veit, ekki aðeins fyrrv. félmrh. sem hefur lofað vegaframkvæmdum í tengslum við sameiningu sveitarfélaga heldur hef ég það fyrir satt að núv. félmrh. hafi sent bréf til afskekktra sveitarfélaga þar sem hann lofar að beita sér fyrir vegaframkvæmdum í tengslum við sameiningu sveitarfélaga. Ég á náttúrlega engan kost annan, verði forseti ekki við þessu, en að leita á fund forseta og óska eftir umræðum utan dagskrár, að sjálfsögðu hinum skemmri af tillitssemi við hæstv. forseta. Ég ítreka þessa ósk mína vegna þess að mér finnst ástæðulaust að lengja umræður í þinginu vegna stirðleika af hendi forseta og hefði talið mun betra ef hæstv. forseti vildi verða við þessu. Það vita allir að nefndir geta tekið mál til umræðu áður en málið er komið til þeirra og hefur margoft verið gert hér. Þetta á því ekki að tefja það. En hins vegar er óhjákvæmilegt annað en fá að vita þetta án nokkurra vífilenginga hvaða afskipti félagsmálaráðherrar hafa af vegaframkvæmdum í landinu og hvort þeir líti svo á að það beri að standa við slíkar yfirlýsingar og slík loforð.