Vegáætlun 1992

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 16:07:13 (2064)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Fyrir liggur af hálfu hæstv. samgrh. að í Gilsfjarðarbrú verður ekki farið á þessu tímabili. Fyrir liggur af hálfu hæstv. fjmrh. að lán sem tekin verða til að flýta framkvæmdum, þar með talið við Kúðafljót, verða greidd af öðrum framkvæmdum síðar. Af þessu verður ekki önnur ályktun dregin en sú að lántökur vegna brúarsmíða, t.d. Kúðafljóts, muni verða endurgreiddar af fjárveitingum til samsvarandi verkefna eða með öðrum orðum stuðla að því að seinka verkinu.
    Ég skal ekkert halda því fram að hv. 3. þm. Vestf. vilji ekki standa við gefin loforð fyrirrennara sinna en hann verður þá að sýna það í verki. Það eina sem dugar til að sýna það í verki er að standa við samþykkt þingmannanna frá því fyrir síðustu kosningar um að verkið verði boðið út árið 1993. Það er hægt að bjóða það út með ýmsum hætti og hægt að ákvarða í útboðsskilmálum hvernig framkvæmdatíminn verður. En aðalatriðið er að í verkið verði ráðist og það verði boðið út. Það liggur fyrir að allt er klárt. Öllum undirbúningi er lokið og það eina sem eftir er er að taka ákvörðun um framkvæmdir. Hv. 3. þm. Vestf. verður að sýna fram á vilja sinn í þessu verki með því að standa að því með mér og fleirum að sjá til þess að verkið verði boðið út á þessu ári. Um það voru fyrirheitin sem ég vitnaði til.