Vegáætlun 1992

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 16:09:05 (2065)

     Egill Jónsson :
    Virðulegi forseti. Þessar umræður rifja það enn einu sinni upp fyrir mér hvað það er gott hlutskipti að vera þingmaður Austfirðinga og þægilegt og ánægjulegt viðfangsefni að starfa að málefnum Austurlands í hópi þeirra alþingismanna sem bæði nú og áður hafa setið á Alþingi fyrir Austurlandskjördæmi.
    Nokkuð hefur verið minnst á fordæmi og þá að sjálfsögðu varðandi þann tillöguflutning sem hér er til umræðu. Það er vissulega mikil ástæða til þess að rifja upp fordæmi.
    Menn hafa sagt í þessari umræðu að það væri fordæmalaust að lögð væri fram vegáætlun með þeim hætti sem hér hefur átt sér stað. Það er reyndar ekki. Á þeim árum sem ég hef setið á Alþingi man ég sérstaklega eftir því að það hafi gerst einu sinni áður. Það var í tíð Matthíasar Á. Mathiesens. Sem samgrh. kom í hans hlut að leggja fram aukavegáætlun undir sömu formerkjum og nú er gert með það að markmiði að auka framkvæmdir. Ég man hins vegar ekki til að það hafi gerst nema í tíð samgrh. Sjálfstfl.
    Það má líka rifja upp að með svipuðum hætti og nú er gert er fordæmi fyrir því að teknar hafa verið ákvarðanir um breytingar á vegáætlun. Ég hygg að það hafi verið í tíð samgrh. Alþb. Það var gert með því að skera niður framkvæmdir. Þá voru þingmenn ekki spurðir.
    Fyrir mér er það nokkuð annað hvort ráðherrar taka sér vald til þess að víkja frá framkvæmdum til þess að draga úr vegaframkvæmdum eða hvort þeir gera það til þess að auka framkvæmdir eins og nú er gert.
    Ég ætla ekki að ræða þetta sérstaka atvik nánar. Mér er kunnugt um að hv. 2. þm. Norðurl. v. er á mælendaskrá á eftir mér og hann mun áreiðanlega skýra þetta mál betur en ég enda var því sérstaklega til hans beint.
    Það er eftirtektarvert þegar umræðan sem hér hefur átt sér stað er metin um hvað málið snýst raunverulega. Venjan er sú að alþingismenn hafa orðið að standa í því að gera breytingar á áformum í vegamálum til lækkunar. Nú bregður hins vegar svo við að hér er verið að taka ákvarðanir og ræða sérstaklega breytingar á vegagerðarframkvæmdum til aukningar.
    Miðað við stöðu málsins eins og hún var í upphafi þessa þings var ráðgert að leggja til stofnbrauta tæplega 1,9 milljarða kr. Með ákvörðun ríkisstjórnarinnar, sem sérstaklega hefur verið til umræðu, bætist 1,8 milljarðar kr. við vegagerðarframkvæmdir. Þetta er ákvörðun um að auka framkvæmdir á næsta ári um helming. Svo hópast menn hér upp með svör og andsvör til þess að finna þessu máli allt mögulegt til foráttu. Menn komast meira að segja að þeirri snilldarlegu niðurstöðu að með því að auka þessar framkvæmdir um helming verði það sérstaklega til þess að seinka tilteknum framkvæmdum. Ég hef aldrei heyrt það fyrr þann tíma sem ég hef setið á Alþingi að ákvarðanir um að stórauka fjárveitingar til framkvæmda séu til þess fallnar að seinka því að tilteknar framkvæmdir náist í höfn. Mér finnst satt að segja

að málflutningur af þessum toga sé ekki samboðinn þeim heiðursmönnum sem hér eiga í hlut.
    Það er vert að minna á það alveg sérstaklega að þegar endurskoðun á þeirri vegáætlun sem nú er í gildi fer fram í vetur hafa þingmannahópar úr einstaka kjördæmum fulla möguleika á því að koma sínum áherslum að þó að ríkisstjórnin hafi tekið ákvarðanir um útdeilingu á þessum 1,8 milljörðum kr., sem ég tel að hafi verið af hinu góða.
    Ég vil svo aðeins, sem er grundvallaratriði í þessum efnum, undirstrika sérstaklega að með þessari ákvörðun liggur það fyrir að tiltölulega bjartsýn vegáætlun, sem afgreidd var á kosningaári í góðri samstöðu á þinginu, kemst heil í höfn og reyndar gott betur. Það er vissulega nýlunda þegar litið er til þessara mála.