Vegáætlun 1992

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 16:23:22 (2070)

     Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka þátt í þessari umræðu og hefði metið það meira að koma þessu máli til nefndar þannig að hægt væri að fara að vinna því brautargengi hér á Alþingi. Segja má að umræðan hafi farið mjög um víðan völl og þar á meðal hefur verið vitnað til orða minna úr þessum ræðustól á haustþingi 1989 þar sem ég gagnrýndi þáv. ríkisstjórn fyrir þær tillögur sem hún hafði þá gert í vegamálum.
    Það má segja að það sé ekki mjög frjótt umræðuefni að fara að grafa í þær orsakir sem þá lágu til minna orða, en hverjar skyldu þær hafa verið? Þær voru þess efnis að þáv. hæstv. samgrh., sá sem las orð mín úr ræðustól áðan, núv. hv. 4. þm. Norðurl. e., hafði gefið Vegagerð ríkisins fyrirmæli um að skerða fé til tiltekinna verkefna sem voru á þágildandi vegáætlun og Alþingi hafði afgreitt. Þetta gagnrýndi ég harðlega. Þetta var gert án þess að haft væri samráð við þingmenn kjördæma og án þess að það væri borið undir Alþingi fyrr en með breytingum sem gerðar voru tillögur um í fjáraukalögum fyrir það ár sem síðla ársins kom til umræðu þegar mín tilvitnuðu orð voru flutt.
    Það er svo önnur saga að sú hæstv. ríkisstjórn kom ekki þessum tillögum fram vegna þess að meiri hluti Alþingis hafnaði tillögum þáv. ríkisstjórnar um niðurskurð á tilteknum verkum í samgöngumálum. Fyrirmæli hæstv. þáv. ráðherra höfðu eigi að síður orðið til þess að ýmis verk urðu ekki unnin á því ári. Þau fyrirmæli voru gefin af þáv. hæstv. ráðherra án þess að hann hefði til þess tilstyrk Alþingis. Þetta er eins og ég sagði næsta ófrjótt efni og ég hefði ekki farið að rifja það upp nema að þessu gefna tilefni.
    Hér liggur fyrir till. til þál. um breytingu á vegáætlun sem hefur það að markmiði að geta hafið útboð á nokkrum nýjum verkum vegna þess að það hefur sparast fé á öðrum lið í útgjöldum Vegagerðar ríkisins. Ég vænti þess að allir hv. alþm. séu alls hugar fegnir að þetta skuli vera hægt. Ég hvet þess vegna hv. alþm. að láta nú staðar numið um að flenna þessa umræðu um víðan völl með brigslyrðum á báða bóga og reyna heldur að greiða fyrir því máli sem ég hygg að öllum þyki vænt um að komist fram.