Hafnalög

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 16:35:32 (2072)


     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Mig rekur minni til að í umræðum um frv. á síðasta þingi sagði hæstv. samgrh. að hann legði ekki áherslu á að frv. yrði að lögum á því þingi. Þetta væri stórt og mikið mál og þyrfti athugunar við. Í umræðum um málið komu fram ýmsar athugasemdir. Hæstv. samgrh. hefur samt ákveðið að leggja frv. fram óbreytt og hefur þess vegna ekki tekið tillit til neinna þeirra athugasemda sem komu fram við þetta mál í fyrra. Ég ætla út af fyrir sig ekki að gera því skóna að ekki sé vilji fyrir breytingum. Það hlýtur að reyna á það í samgn. Ég tel að ýmsa hluti þurfi að skoða betur.
    Ég benti á það við umræðuna síðast að um ný atriði er að ræða, t.d. hvernig skipað er í hafnaráð. Þar er mjög merkilegt ákvæði. Við ráðherraskipti skal skipa að nýju tvo fulltrúa samgrh. Það er skylda. Það stendur ,, . . .  skal skipa að nýju við ráðherraskipti.`` Ef stólaskipti verða í ríkisstjórninni er ráðherra skylt að skipa að nýju menn í þessa stofnun.
    Ég gerði líka athugasemd við það að í 5. gr. er sagt að heimilt sé að endurskipa hafnamálastjóra svo oft sem verða vill. Ég er í grundvallaratriðum andvígur því að embættismenn hafi einhvers konar æviráðningu. Það ætti að setja einhvers konar sólarlagsákvæði við það hve lengi menn geta verið embættismenn stofnana. Það er ekki síður ástæða til þess að endurnýjun verði hjá yfirmönnum stofnana en á mörgum öðrum stöðum í þjóðfélaginu.
    Eitt gagnrýndi ég við frv. síðast sem ég trúði varla að hefði ekki verið tekið til athugunar og það nefndi hæstv. ráðherra áðan. Það er sú hugmynd sem kemur fram í 8. gr.: ,,Eigendur hafna samkvæmt lögum þessum eru sveitarfélög eða hlutafélög. Hafnir geta verið hluthafar í fyrirtækjum sem tengjast starfsemi þeirra.``
    Þarna er verið að fara inn á nýja braut sem út af fyrir sig skal ekki gagnrýnd neitt sérstaklega hérna en hvernig geta menn látið það koma heim og saman við 14. gr. í frv.? Þar segir:
    ,,Tekjum og eignum hafnarsjóðs má einungis verja í þágu hafnarinnar.     Hafnarsjóðir skulu undanþegnir hvers konar sköttum til sveitarsjóða.``
    Það er með öðrum orðum verið að segja að þeir sem stofna hafnir og mynda um það hlutafélög fái leyfi til þess að reka sína starfsemi án þess að borga af því eðlilega skatta og gjöld. Hæstv. samgrh. sagði í ræðu sinni áðan að hann teldi að það væri ekki bara hugsanlegt að hafnir tækju þátt í að reka fiskmarkaði, sem yrðu þá undanþegnir þessum gjöldum, heldur gætu þær rekið einhver önnur samgöngumannvirki. Ég tel það að taka peninga út úr rekstri hafnanna og nota þá til að kaupa hlutafé í svona fyrirtækjum sé í raun og veru að gera atvinnustarfsemi að ýmsu leyti mishátt undir höfði eins og allir hljóta að sjá þar sem tekjur sem ekki bera skatta eru notaðar í annan atvinnurekstur. Þetta tel ég að verði að taka til endurskoðunar.
    Ég ætla mér ekki að telja upp allt sem kom fram við umræðuna síðast. Ég tel að samgn. hljóti að fara vandlega yfir þessi mál og skoða þau með það fyrir augum að gera lagfæringar á frv. Þar vil ég setja spurningarmerki við ýmislegt. Ég tel t.d. svolítið undarlegt að þarna skuli vera gerð tillaga um rétt til þess að taka að 60% þátt í kostnaði við upptökumannvirki fyrir skip og vil minna menn á að það mun líklega einungis um einn slipp að ræða í landinu sem ekki er í eigu einkaaðila. Það hlýtur þá bara að vera að menn séu að setja þessa reglu til að geta komið til móts við eitt fyrirtæki í landinu. Ég skal svo sem ekki segja hvað liggur á bak við þetta en það hlýtur alla vega að hafa verið rætt hjá þeim sem sömdu frv. hvers konar ástand er á þessum málum. Skipasmíðar og verkefni sem unnin eru í skipasmiðjum eru auðvitað iðnaður. Það er auðvitað spurning hvað á að greiða þann iðnað mikið niður. Ekki ætla ég að vanþakka það ef menn vilja taka þátt í því að endurreisa skipasmíðaiðnaðinn. Ég vara hins vegar við því að það sé gert með einhverjum hætti sem kemur eingöngu örfáum til bjargar.