Hafnalög

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 17:25:51 (2078)

     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Herra forseti. Hv. þm. Stefán Guðmundsson spurði hvort þetta væri stjfrv. og hvort ekki væri alveg öruggt að Alþfl. stæði að frv. og hvort hæstv. ráðherra hefði ekki haft samráð Alþfl. við þegar hann lagði þetta fram. Ég veit að hv. þm. þarf ekki að spyrja þessara spurninga en hún kemur mér sannarlega á óvart. Í frv. er ekkert sem ég hef verið að gagnrýna heldur hef ég verið með varnaðarorð um það að ákvæði frv. verði ekki túlkuð sem fyrstu skref í tiltekna átt og til þess að skapa tiltekna þróun sem ég vakti athygli á hér áðan.
    Það kann að vera að það ríki svolítið aðrir stjórnarhættir í Framsfl. en Alþfl. vegna þess að viðhorf Alþfl. til þingsins er það að hér ríki þingræðislegir starfshættir. Þó að Alþfl. sé aðili að ríkisstjórn, þá tekur hann þátt í að móta lög hér á Alþingi og gerir það í samvinnu og samráði. Þetta frv. er lagt hér fram og það þarf enginn að segja hv. þm. Stefáni Guðmundssyni að ekki megi breyta stafkrók. Þvert á móti. Hér má breyta stafkrók ef hv. þingnefnd og þessar umræður opna augu okkar fyrir því að aðrar leiðir séu skynsamlegri. Þess vegna fer þessi umræða fram og það veit hv. þm. Ég trúi því ekki að stjórnarhættir í Framsfl. séu þannig að þegar formaðurinn er búinn að segja eitthvað megi engu breyta.