Hafnalög

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 17:30:44 (2081)


     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Í frv. sem er til umræðu eru ýmis atriði sem vert er að gefa gaum og ekki ástæða til að taka þeim öllum illa í sjálfu sér. Auðvitað er eðlilegt að menn brjóti upp nýjar hugmyndir og velti hlutunum fyrir sér. Ég hygg að það séu eðlileg viðbrögð af hálfu þingmanna að taka því með tiltölulega jákvæðu hugarfari og velta málum fyrir sér undir þeim formerkjum hvort breytingarnar sem er verið að leggja til leiði til góðs fyrir landsbyggðina eða ekki. Ég vil aðeins drepa á fáein atriði í þessu frv.

    Fyrst vil ég nefna það ákvæði að heimilt sé að stofna hlutafélag um hafnir sem fram kemur í 8. gr. ef ég man rétt. Hins vegar segir í 14. gr. að hafnarsjóðir skulu vera undanþegnir hvers konar sköttum til sveitarfélaga. Ég er ekki alveg með það á hreinu hvernig menn ætla að ná því fram að gefa mönnum annars vegar heimild til að stofna hlutfélag um höfn sem mundi skattalega séð lúta undir hlutafélagalög og segja hins vegar að hafnarsjóðurinn sé undanþeginn hvers kyns sköttum sveitarfélaga. Ég vildi gjarnan fá skýringar á því hvort menn hugsi sér að leggja til breytingar á hlutafélagalögum til að ná fram þessu markmiði. Að mínu viti ná menn því ekki fram sem að er stefnt í 14. gr. Ég hygg að miðað við óbreytt frv. yrði hlutafélagaformið ekki mjög fýsilegt fyrir hafnarsjóðinn.
    Þá er einnig vert að skoða heimildina um hafnasamlög. Hv. 5. þm. Austurl. hafði greinilega nokkrar áhyggjur af þessu ákvæði út frá hagsmunum minni byggðarlaga og þeirra hafna og spurði hvort verið væri að stíga skref til þess að leggja niður hafnir. Mér finnst það eðlileg spurning í ljósi þeirrar stefnu sem núv. ríkisstjórn, sem hv. 5. þm. Austurl. styður, hefur í byggðamálum og öll eru á þá lund að líta á hina fáu og smáu sem óhagkvæma rekstrareiningu í þjóðfélaginu og það þurfi að gera sérstakt átak til að skera af kostnað á þeim stöðum. Ég tel þann ótta sem felst í spurningu hv. 5. þm. Austurl. eiga við nokkur rök að styðjast og bendi á að hann er innanbúðarmaður og þekkir betur en ég þær hugrenningar sem blunda í stjórnarliðinu í byggðamálum.
    Ég vil aðeins spyrjast fyrir um 8. gr. og hafnasamlögin. Þar segir að ráðherra ákveði með reglugerð að stofna hafnasamlag að höfðu samráði við eigendur viðkomandi hafna. En ekkert segir að það samráð sé á þann veg að eigendur hafnanna svari því allir jákvætt að stofna eigi hafnasamlag. Það gæti verið að sumir segðu já og aðrir nei og hvað þýðir þá heimildin? Þýðir hún að ráðherra getur sett reglugerð um að búa til hafnasamlag hvort sem vilji er fyrir því eða ekki? Mér sýnist orðalagið vera þannig að verið sé að afhenda ráðherra heimild til að koma á hafnasamlagi jafnvel þó einhverjir menn eða jafnvel allir séu því andsnúnir. Það sé á valdi ráðherra að meta hvort hann nýtir heimildina til að þvinga fram hafnasamlag eða ekki.
    Það kom að vísu fram hjá hv. 1. þm. Vesturl. að ekki verði stofnað hafnasamlag nema heimamenn ákveði sjálfir. Það er út af fyrir sig góður og gildur skilningur en það er ekki sama og stendur í frv. og hann er ekki sá sem mundi fara með þetta reglugerðarvald heldur samgrh. Ég tel því breyta þyrfti 8. gr. til að mæta þessu sjónarmiði hv. 1. þm. Vesturl.
    Ég tek auðvitað eftir því að sá ágæti þingmaður, hv. 1. þm. Vesturl., er formaður nefndarinnar sem vann að samningu að þessu frv. þar sem helsta nýmælið er hafnasamlög. Auðvitað er það athyglisvert að sá ágæti þingmaður, fyrrv. bæjarstjóri í Stykkishólmi og bæjarfulltrúi enn, ef ég man rétt, dregur á grundvelli frv. upp á fskj. I hugmyndir um hafnasamlög. Ég tek eftir því að höfn formanns nefndarinnar, Stykkishólmur, á ekki að vera í hafnasamlagi með neinum. Það er dálítið athyglisverður punktur að jafnvel sá sem hefur forustu um að leggja fram þessa breytingu gerir í raun og veru ráð fyrir því að breytingin nái ekki til sín. Ég spyr hvort það geti verið tilviljun eða hvort hafnasamlag sé fyrir aðra en þá.
    Ég vil greina frá erindi sem ég hef fengið, eins og trúlega aðrir þingmenn Vestfirðinga, frá einum hreppi á Vestfjörðum, Kaldrananeshreppi. Þar var fjallað um frv. 2. nóv. sl. og þeirri hugmynd mótmælt, sem fram kemur í fskj. I, að Hólmavík og Drangsnes verði eitt hafnasamlag. Þeir benda á að það mundi ekki skila neinum fjárhagslegum ávinningi og að forsenda þess sem getið er um í athugasemdum við frv. um gott vegasamband árið um kring sé ekki fyrir hendi og því þurfi fyrst, ef áform eru um að þessar tvær hafnir verði í hafnasamlagi, að bæta samgöngurnar. Auðvitað er það eðlilegur framgangsmáti að til þess að breytingar geti náð fram að ganga þarf fyrst að breyta skilyrðum þannig að þær séu mögulegar en ekki fara í málið í öfugri röð.
    Auðvitað er það grunntónninn, sýnist mér, í hugmyndum um hafnasamlög að reyna að spara í rekstri, komast af með minna fé til þess að reka þessar hafnir og einnig að komast af með minni framkvæmdir í fjárfestingum og reyna þannig að draga úr fjárfestingarkostnaði um land allt. Auðvitað gerir maður sér grein fyrir því að þetta er grunntónninn í þessari hugmynd. Ég vil því spyrja hæstv. samgrh. hvernig er t.d. með Blönduóshöfn. Er það áform ráðherra eða ríkisstjórnarinnar að verða við óskum hluta af sveitarstjórninni þar að leggja nokkur hundruð milljónir í nýja höfn á Blönduósi? Það væri fróðlegt að fá það upplýst af hálfu samgrh. hvort framkvæmd stefnunnar yrði öfug miðað við stefnuna í frv.
    Það er augljóst mál að mínu viti að höfn á Blönduósi er fjarri því að vera forgangsverkefni og mér sýnist miklu nær að miða við að byggja upp Skagastrandarhöfn og nýta hana fyrir bæði byggðarlögin. Það væri í anda þessa frv. að stuðla að því að svo verði. Ég vildi spyrja hæstv. samgrh. hvort áform hans varðandi Blönduós séu þau að þar verði byggð upp á næstu árum höfn fyrir nokkur hundruð milljónir króna.
    Ég hef líka tekið eftir því að um það leyti sem þetta frv. til hafnalaga var lagt fram var lögð fram skýrsla svokallaðrar sveitarfélaganefndar. Hún hefur þennan sama grunntón: Hagræðingu og sparnað á hinni óhagkvæmu landsbyggð eins og trú manna er. Í skýrslunni segir að þeir vilji kannski fara aðra leið en kemur fram í þessu frv. en það muni skila svipuðum árangri að slá saman sveitarfélögum og stofna hafnasamlög. Menn telja sig ná sams konar niðurstöðu. Í þessari skýrslu eru tillögur um breytingar í hafnamálum sem eru unnar í samráði við samgrn. og samgrh. þannig að ég veit ekki betur að þær séu lagðar fram með samþykki samgrh. --- Er nú nokkur skaði að ráðherra skuli ekki á þessu augnabliki geta verið í salnum því að ég tel nokkuð mikilvægt að hann heyri þær tillögur sem eru í þessari skýrslu sveitarfélaganefndar sem ég var að vitna til. Ég vildi gjarnan fá fram svör hans við því hvort sá skilningur minn sé ekki réttur að tillögur þær sem eru í skýrslu sveitarfélaganefndar um breytingar í hafnamálum séu lagðar fram með samþykki ráðherrans.
    Ég vil greina frá meginatriðum tillaganna. Þar er t.d. lagt til að Hafnasamband sveitarfélaga ákveði viðmiðunargjaldskrá hafna en síðan hafi einstakar hafnarstjórnir svigrúm til að hækka og lækka þessa viðmiðunargjaldskrá. Þetta er önnur tillaga en fram kemur í frv. ráðherra.
    Í öðru lagi er lagt til að leggja niður núverandi Hafnabótasjóð. Það er verulega önnur tillaga en sjá má í frv. til hafnalaga. Þar er lagt til að leggja niður Hafnabótsjóð eins og hann er en stofna í staðinn það sem heitir Hafnabótasjóður sveitarfélaga og úthlutun úr honum verði á forræði sveitarfélaganna.
    Þá vil ég líka geta þess að í skýrslunni er lagt til að 25% álagið á vörugjaldið verði fellt niður og í þess stað geti hafnirnar náð sér í aukinn pening með því svigrúmi sem þær hafa í fráviki frá viðmiðunargjaldskrá. Þetta mundi þýða ef við lítum á þessar tvær hugmyndir að þunginn í innheimtunni mundi færast af vöruflutningunum í Reykjavík, þaðan sem megnið af 125 millj. kr. koma, yfir á aðrar hafnir og dreifast m.a. á fiskiskipaflotann. Menn mundu þannig m.a. í auknum mæli sækja sér peninga í aflagjaldi og hækkuðu vörugjaldi á höfnum úti á landi frá því sem er miðað við kerfið með 25% álaginu sem eðli málsins samkvæmt kemur að miklu leyti frá vöruflutningum í gegnum Reykjavíkurhöfn. Menn væru þá að dreifa skattheimtunni frá þeirri höfn yfir á aðrar hafnir og aðra greiðendur.
    Í fjórða lagi er bent á það í skýrslunni að sameining sveitarfélaga mundi draga úr fjárfestingarþörf við hafnir á landinu um 50--100 millj. kr. á ári. Þar sem segir í skýrslunni að sú leið að velja sameiningu sveitarfélaga skili sambærilegri niðurstöðu og hafnasamlög, þá spyr ég: Er það niðurstaða þeirra sem að þessu frv. standa að þeir telji að hafnasamlagaleiðin muni spara fjárfestingarþörf í höfnum um 50--100 millj. kr. á ári?
    Þetta vildi ég láta koma fram á þessu stigi málsins, virðulegi forseti. Ég tel mjög mikið ósamræmi á milli þeirra tillagna í hafnamálum sem sveitarfélaganefndin leggur fram með samþykki samgrn. og ég veit ekki betur en með samþykki samgrh. og þess frv. sem ráðherrann sjálfur er að leggja fram. Það væri því fróðlegt að fá fram skýringar á því hvers vegna þetta mikla ósamræmi er í þessum tveimur tillögugerðum.
    Að öðru leyti vil ég spara mig í umræðum um þetta mál en frekar er orðið en vil að lokum endurtaka það sem ég sagði í upphafi. Mér finnst sjálfsagt að líta á frv. með þessum nýju hugmyndum þannig að menn séu tilbúnir til að skoða þær og velta því fyrir sér í alvöru hvort þær leiði til góðs eða ekki. Á hinn bóginn verð ég árétta það sjónarmið að auðvitað hljótum við við mat á slíkum breytingum að hafa í huga það sjónarmið, sem mér er ofarlega í huga, að styrkja byggðina í landinu og gera ekki þær breytingar á lögum sem leiða til þess að hún veikist. Öðru nær, við þurfum fremur að standa að breytingum sem styrkja landsbyggðina frá því sem nú er.