Hafnalög

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 17:59:20 (2088)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Auðvitað hljóta menn að spyrja þegar svo háttar til eins og ég greindi frá hvor leiðin er ódýrari: Að byggja upp nýja höfn á Blönduósi eða bæta úr á Skagaströnd ef þörf krefur til að ná sama markmiði. Mér er kunnugt um það að hv. þm. Ragnar Arnalds, 3. þm. Norðurl. v., hefur mjög ákveðnar skoðanir á þessu máli og ég veit að hv. þm. Stefáni Guðmundssyni er ekki ókunnugt um þær skoðanir. Ég hygg að skoðanir hans fari nokkuð vel saman við það álit sem ég lét hér uppi áðan þannig að ég sé ekkert ósamræmi í því.