Hafnalög

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 18:21:40 (2090)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðlegi forseti. Það var mjög athyglisvert að hæstv. ráðherra vék ekki að því að svara fyrirspurnum mínum varðandi tillögur þær sem er að finna í skýrslu sveitarfélaganefndar um hafnamál. Ég skil það þannig að ráðherra sé ósammála þeim tillögum og þær séu því ekki lagðar fram með hans samþykki. Það er fróðlegt að það liggi fyrir.
    Þá undrast ég yfirlýsingu ráðherra um að 6. gr. heimild í fjárlögum þessa árs veiti ráðherra ekki heimild til að ráðast í ferjubryggju á Nauteyri við Ísafjarðardjúp. Á fyrri hluta ársins var ekki annað að skilja hjá ráðuneytinu en að sú heimild væri fyrir hendi því svo mjög var hart keyrt á heimamönnum að taka ákvörðun um það hvort þeir vildu að ferjubryggjan yrði á Nauteyri eða Melgraseyri að það mátti engan tíma missa. Þetta er greinilega seinni tíma skilgreining af hálfu ráðherra til að hlaupast frá því verkefni sem honum hefur verið falið af Alþingi. Í bréfi sem þingmenn hafa fengið frá Djúpbátnum kemur m.a. fram að óskað er eftir stuðningi þingmanna við að knýja fram ákvörðun um framkvæmdir sem allra fyrst þannig að útboð geti farið fram núna í haust. Allir sem að málinu hafa komið hafa þannig haft þann skilning á því að hér hafi verið um ákvörðun að ræða og heimild til framkvæmda. Mér þykir svar hæstv. ráðherra benda til þess að hann vilji snúa sig út úr þessum málum með því að víkja sér undan framkvæmdum að sinni og ekki er að finna aðra heimild í stað þeirrar sem nú er fyrir næsta ár. Það er illt til þess að vita að ekki skuli vera meiri hugur að baki þessu efni.
    Ég mótmæli ummælum hæstv. ráðherra varðandi Gilsfjörð. Ég var ekki að tala um að flýta framkvæmdum á brú yfir Gilsfjörð heldur að standa við þær áætlanir sem gerðar hafa verið og þau fyrirheit sem þingmenn beggja kjördæma hafa gefið. ( Forseti: Nú er tími hv. þm. úti og ég bið hann um að ljúka máli sínu.) Já, virðulegur forseti. Ég skal ljúka máli mínu.