Hafnalög

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 18:30:14 (2095)

     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég skil ekki þennan ótta. Það hefur verið vandamál með hvaða hætti hægt sé að útvega fé til hafnarframkvæmda. Ég man eftir því í tíð síðustu hæstv. ríkisstjórnar, þegar talað var um að álver kynni að rísa við Eyjafjörð, að þá þóttust þeir menn sem báru hitann og þungann af ríkissjóði og fóru með landsstjórnina ekki geta risið undir því ef byggja ætti höfn við Eyjafjörð heldur yrðu Eyfirðingar sjálfir að koma til vegna þess að það var ekki talið mjög arðvænlegt fyrir hið erlenda félag sjálft að eiga höfnina. Hins vegar hélt ég að hv. þm. hefði lesið það nýlega í Frey sem Búnaðarfélagið gefur út --- er ekki svo? --- að útvegsbóndinn Haraldur Sigurðsson á Núpskötlu á sína eigin bryggju sem hann hefur kosið að reisa norður þar til þess að skjóta fleiri stoðum undir sinn búskap. Þó Reykjavíkurhöfn sé ekki rekin í hlutafélagaformi, þá eru samt sem áður til einstaklingar sem eiga sínar eigin --- ég vil nú ekki kalla það höfn en sínar eigin bryggjur og bera af þeim veg og vanda og allan kostnað. Ég held að aðalatriðið í þessum efnum sé að reyna að finna allar leiðir til þess að draga úr kostnaði við flutninga og við sjósókn. Einn liðurinn í því er að reka hafnir ódýrari en nú er og afla meira fjár til þeirra hluta.
    Ég held að ég hafi ekki meira um þetta að segja nema ítreka það að ég skil ekki af hvaða hvötum slíkur ótti er runninn.