Ríkismat sjávarafurða

51. fundur
Miðvikudaginn 11. nóvember 1992, kl. 13:49:35 (2104)

     Frsm. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nál. minni hluta sjútvn. um frv. til laga um stofnun hlutafélags um Ríkismat sjávarafurða.
    Nefndin hefur við umfjöllun sína stuðst við umsagnir sem lágu fyrir á síðasta þingi frá Ríkismati sjávarafurða, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Landssambandi ísl. útvegsmanna, Samtökum fiskvinnslustöðva, Félagi veiðieftirlitsmanna, Vélstjórafélagi Íslands, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, nefnd um einkavæðingu ríkisfyrirtækja, BSRB og BHMR.
    Í umfjöllun nefndarinnar kom fram að stéttarfélög starfsmanna hafa miklar áhyggjur af stöðu starfsmanna Ríkismatsins ef stofnað verður hlutafélag um Ríkismat sjávarafurða.
    Miklar skipulagsbreytingar hafa nú þegar verið gerðar á stjórnkerfi sjávarútvegsins með stofnun Fiskistofu. Hin nýja skipan þarf að fá sinn reynslutíma og þess vegna er rétt að reka starfsemi Ríkismats sjávarafurða tímabundið sem hluta af starfsemi Fiskistofu. Með því móti má koma í veg fyrir að vandamál skapist þegar nýtt kerfi tekur við í einu vetfangi. Að stofna hlutafélag um þann hluta starfseminnar sem

ríkið hefur með höndum er rétt að láta bíða uns reynsla er komin á hve vel skoðunarstofurnar skila sínu hlutverki.
    Minni hluti nefndarinnar telur þær breytingar sem í frv. felast ekki tímabærar og leggur til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og að sjútvrh. verði falið að undirbúa og leggja fyrir Alþingi nýjar tillögur þar sem gert verði ráð fyrir því að starfsemi Ríkismats sjávarafurða falli undir Fiskistofu.
    Undir nál. rita Jóhann Ársælsson og Steingrímur J. Sigfússon.
    Miklar umræður urðu í sjútvn. um þetta mál og höfðu reyndar farið fram í þinginu áður. Hér eru á ferðinni mjög miklar breytingar, eins og ég sagði áðan, og komið hafa fram miklar efasemdir um það fyrirkomulag sem verið er að taka upp, þ.e. stofnun skoðunarstofa. Það hefur verið vandlega rökstutt bæði á Alþingi og á fundum nefndarinnar að upp geti komið ýmiss konar vandamál vegna þessarar nýbreytni. Þess vegna er full ástæða til að fara sér hægt í málinu og bíða með að gera Ríkismatið að einni venjulegri skoðunarstofu með sömu réttarstöðu og hinar einkavæddu skoðunarstofur sem menn hugsa sér að taki við þessu hlutverki. Það er þess vegna sem við leggjum til að beðið verði með að stofna þetta hlutafélag.
    Það tókst samkomulag í nefndinni um frv. sem var samþykkt áðan um meðferð og eftirlit sjávarafurða. Það var eftir langar umræður sem það samkomulag tókst og þeir sem skipa þennan minni hluta tóku þátt í því samkomulagi m.a. og kannski ekki hvað síst vegna þess að inn í frv. tókst að koma ákvæðum um það að sjútvrh. gæti gengið þess götu til baka ef á þyrfti að halda. Ég tel að það þurfi að vera ljóst að ekki verði sett af stað atburðarás sem muni valda verulegum vandræðum. Sjútvrh. getur þá alla vega greitt úr þeim með því að láta fyrirtækin í landinu, sem eiga þarna hlut að máli, ekki vera bundin af þeirri skyldu að gera samninga við þessar skoðunarstofur. Það er auðvitað algert einsdæmi að Alþingi Íslendinga geri atvinnurekendum í sjávarútvegi skylt með lagaboði að gera samning við einkaaðila úti í bæ um eftirlit með þeirri framleiðslu sem á að flytja á erlendan markað. Það liggur fyrir að það eftirlit sem þarna er á ferðinni muni ekki duga erlendum aðilum. Stimpill skoðunarstofu verður því að koma til.
    Það hefur verið mín skoðun eftir að hafa fylgst með þessum umræðum að þetta muni leiða til þess að smám saman muni Fiskistofa verða að koma upp sams konar eftirliti og Ríkismat sjávarafurða hefur haft með höndum. Þetta fyrirkomulag með einkavæddum skoðunarstofum þar sem einkaaðilar geta verið jafnvel fyrirtækin sjálf, þar sem hagsmunaárekstrar eru greinilega frá upphafi fyrir hendi og þar sem skoðunarstofunum er raunverulega skapaður sá grundvöllur að þær verða að hafa eftirlit með sínum viðskiptamönnum og eru, ef þær þurfa að beita hörðu við sína viðskiptamenn, jafnvel að kasta sínum viðskiptavinum frá sér, veldur því að ég tel ástæðu til að fara hér hægt. Af þessum og ýmsum fleiri ástæðum sem ég ætla ekki að telja upp í löngu máli er full ástæða til að fara varlega og hafa opna leið til að ganga þessa götu til baka.