Ríkismat sjávarafurða

51. fundur
Miðvikudaginn 11. nóvember 1992, kl. 13:55:46 (2105)

     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Hér er eitt af mörgum frumvörpum ríkisstjórnar um kerfisbreytingarnar í sjávarútveginum. Það var allítarlega rætt þegar frv. var lagt fram. Ég sé það að ríkisstjórnin er ákveðin í því að ná þessu máli í gegn og þeim breytingum sem eiga sér nú stað. Þess vegna sé ég ekki í sjálfu sér ástæðu til að hika við að ganga til atkvæðagreiðslu um þetta mál eins og fulltrúar Alþb. í nefndinni leggja til. Ég held að það sé eins gott að klára málið núna. Við munum engu geta breytt þar þótt við stjórnarandstæðingar í nefndinni hefðum vilja til þess.
    Það er að ýmsu að hyggja í frv. og það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni áðan að samkvæmt kröfum Evrópubandalagsins og Bandaríkjanna er vottunarþátturinn eða gæðastimpillinn ekki viðurkenndur nema hann sé gerður af stofnun sem heyrir undir ríkið og sé í eigu þess. Þess vegna munu skoðunarstofurnar duga skammt í þeim efnum. Mér finnst satt að segja í þessu máli öllu að verið sé að búa til óþarfa kerfi með þessum skoðunarstofum. Það hefði verið miklu heilbrigðara og eðlilegra að breyta Ríkismati sjávarafurða í þessum efnum og með tilliti til þess að við höfum nú ákveðið að taka upp Fiskistofu. Mér finnst þessi árátta hjá ríkisstjórninni og hjá þinginu almennt dæmalaus. Við erum alltaf að breyta og koma með eitthvað nýtt. Gerðar eru kostnaðaráætlanir. Við fáum frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun að þetta muni kosta nánast ekki neitt eða sáralítið. Ég efast um að það standist nokkurn tíma því að staðreyndin er sú að fyrr en varir erum við farnir að tala um stórkostlegt fjármagn sem þarf að auki til starfseminnar. Ég held að þess vegna væri það oft og tíðum miklu heppilegra og skynsamlegra að reyna að bæta það kerfi sem við höfum frekar en sífellt að vera að breyta. Þess vegna hefði ég heldur viljað að við hefðum reynt að taka þannig til hendi í sambandi við Ríkismatið og aðlaga það að hinni nýju starfsemi.
    Ég hefði líka gaman af að spyrja hæstv. sjútvrh., ef hann væri hér, hvaða kröfur um starfsréttindi munu verða gerðar til þeirra aðila sem munu starfa á skoðunarstofunum. Nú munu um 14 manns missa atvinnu sína eða það er a.m.k. óvíst hvað verður um 14 starfsmenn hjá Ríkismati sjávarafurða og auðvitað hljótum við að hafa áhyggjur af því.
    Ég hefði áhuga fyrir að heyra álit hæstv. sjútvrh. á því sem segir í 3. gr. frv.: ,,Á fyrsta starfsári nýja félagsins er heimilt að bjóða þeim mönnum, sem starfa hjá Ríkismati sjávarafurða við stofnun félagsins, hlutabréf til kaups á sérstökum kjörum og binda þá sölu sérstökum skilyrðum.``
    Ég vil fá hæstv. sjútvrh. til að fara yfir þetta og skýra aðeins fyrir okkur nánar hvað hér er verið að fara.

    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál. Það er ljóst að ríkisstjórnin ætlar sér að ná þessu fram. Hún sér ekkert annað en einkavæðingu á öllum sviðum. Það er alveg skýr stefna ríkisstjórnarinnar hvort sem það verður til bóta eða ekki. Ég tel að þessi breyting sem hér er verið að gera muni hafa mikinn kostnaðarauka í för með sér fyrir hin ýmsu fyrirtæki. Það er alveg ljóst í mínum huga. Það mun kosta mikið. Ég sé fyrir mér t.d. grásleppukarlana víðast hvar hringinn í kringum landið þegar þeir þurfa að fara að kalla til fulltrúa frá Skoðunarstofunni hf. og fá þá til að fljúga til sín og kannski ekki að fljúga því svo afskekkt er þetta víða. Ekki eru flugvellir alls staðar svo þeir þurfa að keyra og yfirvinnutíminn byrjar að tifa um leið og þeir koma út frá Reykjavík. Ég sé því fyrir mér hvernig þetta muni verða og kannski mun verð afurðanna ekki hrökkva fyrir kostnaðinum af því að ná eftirlitsmönnunum til sín á staðinn. Við ríkisstjórnina þarf ekki að tala. Það er skýlaus stefna hennar að einkavæða og Alþfl. fylgir þar dyggilega á eftir í þessu máli eins og öðrum. Ég hefði talið, virðulegi forseti, skynsamlegra að breyta og hagræða í kerfi Ríkismats sjávarafurða og tengja það betur við starfsemi Fiskistofunnar. Það ætti að skila betri árangri.