Sementsverksmiðja ríkisins

51. fundur
Miðvikudaginn 11. nóvember 1992, kl. 14:34:49 (2110)

     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir lýsti í mörgum fögrum orðum kostum þess að breyta fyrirtækjum í eigu ríkisins í hlutafélag en sagði hins vegar að það væri gjarnan ekkert annað en fyrsta skrefið að sölu og taldi að fyrir ríkisstjórninni vekti ekkert annað en að selja fyrirtækið. Hún telur það hins vegar mikla tímaskekkju vegna þess að fyrirtækið búi við einokunaraðstöðu.
    Nú liggur fyrir þinginu frv. um samkeppnislög og það er mikil samstaða held ég í þingsölum um meginatriði þess frv. Þess vegna langaði mig til að spyrja hana: Þegar og ef frv. verður samþykkt og verður að lögum, en í því er tekið mjög á fyrirtækjum sem hafa markaðsráðandi aðstöðu eins og Sementsverksmiðjan hf. mun hafa, mun hún þá treysta sér til þess að samþykkja þetta frv.?