Framtíð herstöðvarinnar í Keflavík

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 10:48:13 (2134)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hafa miklar breytingar átt sér stað í heimsmálum. Kalda stríðinu er lokið og gömlu stórveldin eru óðum að kalla þá heri sína heim sem dvalið höfðu í Evrópu um hálfrar aldar skeið. Áhrifa þessara miklu breytinga hlaut að gæta hér á landi eins og annars staðar, enda hefur nú komið í ljós svo sem vænta mátti að dregið hefur úr framkvæmdum á vegum Atlantshafsbandalagsins og nokkuð hefur fækkað í liði því sem situr Keflavíkurflugvöll. Að mínum dómi voru íslensk stjórnvöld ótrúlega sofandi vegna þessarar þróunar því ljóst mátti vera að samdráttur var yfirvofandi ef ekki lokun og slíkt hlaut að leiða af sér atvinnumissi fyrir fólk á Suðurnesjum og tekjumissi fyrir íslenska ríkið.
    Nú er það svo, virðulegi forseti, að ég græt ekki þessa þróun heldur fagna ég því hve friðsamlega horfir í heiminum ekki síst hér á norðurslóðum og vona að við þurfum ekki lengi enn að hafa erlendan her í landi okkar. Þó er afar brýnt að við fylgjumst vel með þróuninni og við förum að ræða í alvöru að hve miklu leyti við eigum sjálf að taka við öryggisgæslu umhverfis landið jafnt í lofti sem á láði. Við verðum að átta okkur á áhrifum samdráttarins og grípa til aðgerða til að skapa því fólki vinnu sem um áratuga skeið hefur byggt allt sitt á hernum í Keflavík.
    Í september sl. fór sendinefnd vestur til Washington á fund bandarískra stjórnvalda m.a. til að ræða framkvæmdir á vegum Mannvirkjasjóðs NATO og væntanlega framtíð herstöðvarinnar. Mig fýsir að heyra meira frá þeim viðræðum en það sem lesa má í fréttatilkynningum ráðuneytisins og yfirlýsingu þeirri sem gefin var út eftir fundinn. Því spyr ég hæstv. utanrrh.:

    ,,Hverjar urðu helstu niðurstöður þeirra viðræða sem áttu sér stað í september sl. milli fulltrúa íslenskra og bandarískra yfirvalda
    a. um framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli og annars staðar á vegum hersins,
    b. um framtíð herstöðvarinnar í Keflavík?