Flutningur Rafmagnsveitna ríkisins til Egilsstaða

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 10:58:59 (2139)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda er það á stefnuskrá núv. ríkisstjórnar að undirbúa flutning ríkisstofnana frá höfuðborgarsvæðinu út á land annaðhvort í heild eða að hluta. Til þess að fylgja því máli fram hefur forsrh. tilnefnt sérstaka nefnd sem vinnur að því máli undir forustu fyrrv. þingmanns og forseta sameinaðs Alþingis, Þorvalds Garðars Kristjánssonar. Í þeirri nefnd er verið að skoða þau mál í heild sinni m.a. með vísan til eldri tillagna sem fyrir lágu frá fyrri tíð um það efni. Þess skal getið að staða Rafmagnsveitna ríkisins hefur þegar verið á dagskrá í starfi nefndarinnar og forstjóri Rarik hefur verið kvaddur á fund nefndarinnar til viðræðna um það.
    Hins vegar hefur engin sérstök athugun farið fram á því máli í iðnrn. og engin ákvörðun verið tekin enn. Á það má hins vegar benda að Rarik hefur á undanförnum árum eflt mjög umdæmisskrifstofur sínar, þar á meðal á Egilsstöðum, með auknu sjálfdæmi umdæmisskrifstofanna um bæði rekstur og framkvæmdir. Höfuðstöðvar í Reykjavík hafa þróast í að verða eins konar aðalskrifstofa en sífellt fleiri verkefni hafa verið flutt frá aðalstöðvunum með aukinni ábyrgð stjórnsýslulega séð til umdæmisskrifstofanna.
    Þess má síðan geta að í því nál. sem fyrir lá frá nefnd sem fjallaði um þetta sama efni í tíð ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar voru gerðar tillögur sem m.a. tóku til flutnings á höfuðstöðvum Rarik. Ég geri ráð fyrir að þær tillögur verði skoðaðar í ljósi breyttra aðstæðna.
    Svarið er því í stórum dráttum á þá leið að stefnumörkun liggur fyrir, nefnd er að störfum, um þetta er fjallað en ákvörðun hefur enn ekki verið tekin.