Hvalveiðar

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 11:21:37 (2151)

     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. svörin. Það kom greinilega fram í máli hans að það er ekki búið að ákveða hvenær hvalveiðar hefjast.
    Við eigum í miklum atvinnuerfiðleikum og þurfum auðvitað að hugsa um heildarhagsmunina. Það er ekki spurning að við þurfum að gera það en við eigum allt til að hefja hvalveiðar. Við eigum hvalstöðina, við eigum fullt af frystihúsum þar sem hægt er að frysta hvalinn og við eigum mikinn skipaflota, mikinn mannskap sem skortir vinnu og við eigum mikið af hval í sjónum og við eigum markað fyrir hvalinn í Japan. En það er rétt að við verðum að hugsa um heildarhagsmunina og þess vegna var ég að spyrja hæstv. sjútvrh. hvernig það áróðursstríð gengi sem við verðum að fara út í úti í hinum stóra heimi. Við verðum að vinna það áróðursstríð. Ég var úti í Bandaríkjunum einmitt þegar þessi áróður hvalfriðunarsinna stóð sem hæst og það var ótrúlegt að sjá hvað þetta hafði mikil áhrif á markaðinn. Það komu t.d. börn heim með miða úr skólanum, en þau fengu heita máltíð í skólanum sem var fiskur frá Íslandi og á miðanum stóð í bréfi til foreldra: Hættið að láta börnin ykkar borða í skólanum því þar er fiskur frá Íslandi þar sem hinir miklu hvalamorðingjar búa. Þetta er ekkert einfalt mál. Ég geri mér fulla grein fyrir því. Þetta er ekkert einfalt mál en við verðum samt að vinna þetta stríð því að hvalurinn er að éta þann fisk sem við viljum gjarnan veiða og selja á þessum mörkuðum. Og þess vegna er það mjög mikilvægt að við hefjum okkar áróðursstríð úti í hinum stóra heimi.