Sjávarútvegsstefna

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 11:42:57 (2159)

     Fyrirspyrjandi (Jón Helgason) :
    Hæstv. forseti. Fyrir rúmu ári síðan kvað hæstv. sjútvrh. upp þann dóm að rekstrarstaða sjávarútvegsfyrirtækja væri þá óviðunandi svo stefndi í rekstrarstöðvun margra þeirra. Þetta kom engum á óvart sem til þekkti þar sem fyrsta efnahagsaðgerð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, vaxtasprengingin mikla, lagði eins milljarðs kr. útgjöld á sjávarútveginn á ársgrundvelli. Hæstv. sjútvrh. fylgdi þessari yfirlýsingu eftir í ríkisstjórninni með tillögum um aðgerðir sem þyldu enga bið. Um það sagði hæstv. forsrh. að ríkisstjórnin hefði annað þarfara að gera en að sinna slíkum málum. Í verki svöruðu stjórnarflokkarnir því á Alþingi við afgreiðslu fjárlaga með nýjum skattaálögum á sjávarútveginn, yfir hálfan milljarð króna.
    Eftir áramót vakti hæstv. sjútvrh. enn máls á rekstrarvanda sjávarútvegs í ríkisstjórninni. Þá vísað hæstv. forsrh. málinu til nefndar um endurskoðun fiskveiðistefnu, nefndarinnar sem hér var rætt um áðan. Þá nefnd hafði hæstv. sjútvrh. skipað sumarið 1991 og jafnframt formann hennar samkvæmt ákvæðum laga um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða. Við því brást hæstv. utanrrh. með kröfu um að fá einnig sinn formann og síðan hefur hún haft þá einstæðu skipan að hafa tvo formenn.
    Þegar þorskafli var dreginn saman á síðasta sumri eftir harðar opinberar deilur milli forsrh. og sjútvrh. var flestum ljóst að það áfall þyrfti að jafna. Hæstv. sjútvrh. lagði eindregið til að Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins yrði notaður í þessu skyni. Hæstv. forsrh. sagði að það kæmi ekki til greina því hann hefði lofað formanni Alþfl. að gera það ekki. Í staðinn sagðist hann ætla að koma með nýjar tillögur sem hann ferðaðist með landshorna á milli í tösku sinni og kynnti síðan í fjölmiðlum án vitundar sjútvrh. Hins vegar hefur ekkert af þeim hugmyndum komið til framkvæmda frekar en annað gagnlegt.
    Fyrir skömmu flutti hæstv. sjútvrh. enn ræðu á þingi LÍÚ og flutti þar sinn aftökulista. Daginn eftir flutti hæstv. utanrrh. sína alkunnu heybrókarræðu þar og sagði tóma vitleysu sem sjútvrh. sagði. Allt situr því við það sama, ekkert heyrist frá tvíhöfða nefndinni hvorki um rekstrargrundvöll sjávarútvegs eða stjórn fiskveiða. Á sama tíma biður hvert fyrirtækið eftir annað um greiðslustöðvun og með hverri viku sem líður vofir yfir fleirum að riða til falls. Enginn veit hvað ríkisstjórnin ætlar að gera.
    Ég hef því á þskj. 194 spurt hæstv. sjútvrh.:
    ,,Hver eru aðalatriðin í stefnu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar í málefnum fiskveiða og fiskvinnslu?``