Sjávarútvegsstefna

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 11:51:03 (2161)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Ég held að það sé full ástæða til að fagna því að hæstv. sjútvrh. er tilbúinn að gefa okkur skýrslu um stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málum. Okkur er hún ekki ljós og það er mjög nauðsynlegt að hún verði ljós. Þeim tíma sem við höfum til að endurskoða sjávarútvegsstefnuna er að ljúka. Þó svo að hæstv. sjútvrh. hafi sagt það áðan að það sé hans hugmynd að framlengja þessu kerfi, sem nú er, svo til óbreyttu með einhverjum smávegis lagfæringum og að sniðnir verði einhverjir lítils háttar agnúar af því þá er grundvallarágreiningur um þetta kerfi. Ég er alveg sannfærður um að það er ekki nein samstaða í ríkisstjórnarflokkunum um það að framlengja þessu óbreyttu. Ég hef það frá fyrstu hendi. Þess vegna held ég að þessi skýrslugjöf sem hann er að bjóða okkur upp á sé mjög nauðsynleg og ætti að geta upplýst þingið og þjóðina um það hvaða vandamál það eru sem ríkisstjórnin stendur frammi fyrir við mótun fiskveiðistefnunnar.