Sjávarútvegsstefna

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 12:00:42 (2167)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Þeir keppast við að snúa hér út úr hv. 2. þm. Suðurl. og hv. 5. þm. Suðurl. Ég stend að sjálfsögðu við það að með þeim ráðstöfunum sem gerðar voru var reksturinn viðunandi fram til þessa hjá sjávarútvegsfyrirtækjunum. Hv. 2. þm. Suðurl. orðaði það svo að reksturinn hefði bjargast með þessum ráðstöfunum. Út af fyrir sig má alveg nota það orðalag. En það er enginn ágreiningur hvorki milli mín né þeirra um það að þegar þessum ráðstöfunum sleppir stöndum við frammi fyrir því að rekstraraðstaðan er óviðunandi og svo óviðunandi að jafnvel forustumenn launamanna hafa boðist til að taka höndum saman við forustumenn atvinnurekenda til að mynda þjóðarsátt um ráðstafanir til að styrkja undirstöðu framleiðslu og útflutnings í landinu. Ég hef áður fagnað því frumkvæði og vona að það leiði til lausnar.
    Ef menn vilja ganga enn lengra skulu menn átta sig á því að hér er verið að tefla um það hvort leggja eigi meira til framleiðslunnar eða neyslunnar. Það er gaman að því þegar talsmenn Alþb. bjóðast til að ganga enn lengra í því efni en umræður hafa fallið til um. Það þýðir auðvitað að ganga þarf tímabundið á kaupmátt til að styrkja útflutningsframleiðsluna. Um það snýst málið ef menn eru að tala um það í alvöru og ef menn eru að horfa til þess að bæta í raun og veru rekstrarstöðu sjávarútvegsfyrirtækjanna. Það þýðir ekki að tala um þessi efni og slá um sig án þess að gera sér grein fyrir því um hvað málið snýst.
    Varðandi þá spurningu hvernig komið sé þeim athugunum sem ákveðnar voru til þess að bæta þeim tjónið sem verst urðu úti í þorskbrestinum þá er það svo að um það náðist ekki samkomulag að nota Hagræðingarsjóð í þessu skyni. Þá var ákveðið að fela Byggðastofnun að koma fram með tillögur. Hún gafst upp við að útfæra þær tillögur og sérstakri nefnd sem þrír ráðherrar skipuðu, sjútvrh., fjmrh. og viðskrh., hefur verið falið það verkefni. Hún vinnur undir forustu ráðuneytisstjórans í fjmrn. og ég vænti þess að tillögur frá henni komi innan ekki langs tíma.