Virðisaukaskattur og svört atvinnustarfsemi

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 12:06:06 (2169)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegur forseti. Það er spurt hvort á síðustu tveimur árum hafi farið fram könnun á umfangi virðisaukaskattssvika og svartri atvinnustarfsemi og ef svo er hver niðurstaða þeirrar könnunar hafi verið.
    Því er til að svara að ekki hefur farið fram skipuleg heildarkönnun á umfangi virðisaukaskattssvika eða svartri atvinnustarfsemi á síðustu árum. Síðasta könnun sem gerð var á slíkum skattsvikum sem hugsanlega færu fram var gerð, eins og fram kom í ræðu fyrirspyrjanda, á árinu 1985 vegna ársins 1984 og 1985 ef ég man rétt. Gefin var út 1986 svokölluð skattsvikaskýrsla og sú skýrsla var lögð fyrir Alþingi á árinu 1986. Mikið hefur verið vitnað til hennar síðan og ýmsir framreikningar verið í gangi en ég vara við slíkum framreikningum vegna þess að við búum nú við mjög breytt virðisaukaskattskerfi en þarna var miðað við söluskatt fyrst og fremst.
    Virðisaukaskattur var tekinn upp í ársbyrjun 1990. Við undirbúning framkvæmda var lögð áhersla á að hún gæti verið sem einföldust og unnt væri að koma á virku eftirliti. Af þeim ástæðum var m.a. lögð áhersla á að skattþrep yrði aðeins eitt og að undantekningar frá skattskyldu yrðu fáar og vel afmarkaðar.
    Fyrri reynsla af söluskatti hér á landi og reynsla annarra þjóða sýnir að þessi atriði eru lykill að virku eftirliti og viðunandi skattskilum. Það er reyndar sammerkt með niðurstöðum allra slíkra kannana hérlendis og erlendis að það er nauðsynlegt að skattstofnarnir séu sem breiðastir og hutföllin sem lægst ef ná á miklum árangri og koma í veg fyrir skattsvik. Á síðasta ári, eftir að fyrir lágu endanleg skil á skattgögnum fyrir fyrsta ár virðisaukaskatts, þ.e. árið 1990 og ársreikningar skattskyldra aðila, var hafist handa um skipulega endurskoðun á uppgjöri virðisaukaskattsins fyrir það ár. Valin voru út tiltekin fyrirtæki og starfsgreinar með tilliti til þess hvar helst þótti vera hætta á undanskoti. Borin voru saman skattskil þessara fyrirtækja og ársreikningar þeirra og önnur tiltæk gögn um starfsemina.
    Auk þessa eftirlits fer fram með reglubundnum hætti eftirlit með virðisaukaskattskýrslum fyrir hvert tveggja mánaða uppgjörstímabil fyrir sig. Er í því eftirliti einkum litið til þeirra aðila sem gera kröfu um endurgreiðslu á innskatti eða þar sem innskattshlutfallið er óeðlilega hátt miðað við aðra hliðstæða starfsemi.
    Þessar endurskoðanir leiddu til enndurákvörðunar á virðisaukaskatti að fjárhæð nærri 400 millj. kr. vegna ársins 1990. Þetta er niðurstaða þessa eftirlits. Eins og áður segir hefur ekki farið fram sérstök athugun á svartri atvinnustarfsemi, þ.e. hvort þeir sem atvinnustarfsemi stunda standa skattyfirvöldum skil á skýrslum og þeim skatti sem þeim ber að innheimta. Eftirliti með tekjuskráningu er haldið uppi svo sem kostur er.
    Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga fyrr á þessu ári var því lýst yfir að unnið yrði að könnun á umfangi skattsvika og leiðum til að stemma stigu við þeim. Hefur verið ákveðið að fela nefnd aðila vinnumarkaðarins og ríkisins að annast þessa úttekt sem m.a. mundi fela í sér að endurmeta niðurstöðu skattsvikaskýrslunnar frá 1985 í ljósi þeirrar þróunar og breytinga sem orðið hafa síðan. Nefndin hefur verið skipuð og fjmrn. hefur undirbúið starfið en gert er ráð fyrir að sjálft nefndarstarfið hefjist á næstunni og tillögur geti legið fyrir um næstu áramót.
    Fjmrn. vinnur sem stendur að endurskoðun á fyrirkomulagi skatteftirlits í skattkerfinu má gera ráð fyrir að sú athugun leiði til verulegra breytinga frá því sem nú er. Gert er ráð fyrir því að aukin áhersla verði lögð á rannsókn brota á skattalögum og brota á bókhaldslögum og að embætti skattrannsóknastjóra verði eflt til að taka á málum af þessum toga. Í þessu sambandi má og vekja athygli á aukinni áherslu sem

rannsóknalögregla ríkisins leggur á efnahagsbrot og að í undirbúningi er endurskoðun á bókhaldslögum þar sem málefni er varða viðurlög við bókhaldsbrotum er eitt þeirra atriða sem sérstaklega verða athuguð.
    Samhliða framangreindri breytingu á verkefnum skattrannsóknastjóra er fyrirhugað að flytja skatteftirlit, þ.e. reglulegt eftirlit með framkvæmd skattalaganna, til skattstofanna í meira mæli en verið hefur svo þær verði í stakk búnar að sinna þessum málum betur en nú er.