Virðisaukaskattur og svört atvinnustarfsemi

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 12:17:44 (2174)


     Stefán Guðmundsson :
    Hæstv. forseti. Það vantar ekki að hæstv. fjmrh. telur sig hafa efni á að slá um sig í þessum ræðustól þegar hann talar um þessi mál. Framganga hans í skattsvikamálum eru ekki sæmandi honum og þeim fjármálaráðherrum sem á undan honum hafa setið um nokkurt skeið. Það er hreint og klárt. Og bera því síðan við að ekki sé tími til þess hjá starfsmönnum ráðuneytanna að vinna að þessu máli er honum heldur ekki sæmandi. Það er ekkert sjálfgefið að það séu akkúrat þeir menn sem í ráðuneytinu vinna og hafa smíðað þetta hripleka kerfi sem eiga að endurskoða það. Það væri miklu nær fyrir ráðherrann að fá aðra utanaðkomandi aðila til að fara ofan í þetta kerfi og kanna hversu hriplekt það er.