Virðisaukaskattur og svört atvinnustarfsemi

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 12:18:50 (2176)


     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Þessi ræða hv. þm. breytir í engu minni skoðun á því sem hann sagði fyrr á þessum fundi á hinu háa Alþingi. Ég bendi á að það fólk sem hefur unnið að breytingum hefur auðvitað unnið að breytingunum á grundvelli gildandi laga. Það voru stjórnmálamennirnir, við sem hér sitjum, sem settum löggjöfina og því miður er hún æði götótt. Þess vegna er erfitt að halda úti eftirliti.
    Þetta vil ég að komi fram því það er ekki hægt að kenna starfsfólkinu um þetta með nokkrum hætti. Ég vil einungis segja og fullyrða að fjármálaráðherrar hafa talið eftirlit með skattsvikum vera sitt forgangsverkefni. Ég veit að þar tala ég ekki bara fyrir mína hönd heldur hönd fyrri fjármálaráðherra sem setið hafa undanfarin ár. Ég hvet hv. þm. til þess að spara hávaðann og gífuryrðin. Það er ekki þannig sem við leysum þessi viðkvæmu mál heldur með þrotlausu starfi og þar eigum við að standa saman til þess að árangurinn geti náðst.