Virðisaukaskattur á heimilisiðnaði

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 12:22:42 (2178)


     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Þessi fsp. kemur beint í kjölfar annarrar fsp. og sýnir hve þessi mál eru viðkvæm því í raun er erfitt og vandratað meðalhófið í þessum efnum. Áðan var verið að tala um svarta atvinnustarfsemi og skattsvik. Nú er hins vegar verið að tala um að hve miklu leyti starfsemi á að vera undanþegin þessum skatti. Það er auðvitað grundvallaratriði fyrir þá sem þurfa að stunda eftirlitsstörfin og fylgjast með því hvort staðið sé við lögin að hafa undanþágur sem allra fæstar, helst engar.
    Í 2. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, kemur fram að skattskylda nái til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra. Þetta er meginreglan í lögunum.
    Í 3. gr. sömu laga er sagt að skylda til að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð hvíli m.a. á þeim sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni selja eða afhenda vörur eða verðmæti ellegar inni af hendi skattskylda vinnu og þjónustu.
    Sala á heimilisiðnaði sem stunduð er í atvinnuskyni er því skattskyld samkvæmt þessum lögum.
    Þó er þess að geta að þeir eru undanþegnir skattskyldu sem selja skattskylda vöru eða þjónustu fyrir minna en 183.000 kr. á ári.

    Svar við síðari spurningunni er að framangreint undanþáguákvæði er miðað við heildarsölu hins skattskylda en ekki einstaka þætti sölunnar. Ef sá sem stundar búskap selur skattskyldar vörur fyrir meira en 183.000 kr. á ári nýtur hann ekki þessarar undantekningar, eins þó einstaka þættir, svo sem sala á heimilisiðnaði, nái ekki hinu tilgreinda marki. Það sama á við um þann sem stundar vinnu utan heimilis. Ef skattskyld heildarsala viðkomandi m.a. vegna annarrar sölu en heimilisiðnaðar er umfram framangreinda upphæð þá er hann skattskyldur.
    Það er hins vegar rétt sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda að það kann að sýnast ósanngjarnt að þeir sem stunda framleiðslustarfsemi geti ekki nýtt sér þessa reglu þegar borið er saman við rétt hins sem vinnur launaða vinnu en stundar ekki virðisaukaskattskylda starfsemi.
    Þetta eru reglurnar eins og Alþingi skildi við þær á sínum tíma. Við höfum reynt að fara eftir þessum reglum en við vitum að það er erfitt og erfitt að meta hvenær á að krefjast þess að um skýrslugerð sé að ræða og staðið sé skil á þessum skatti. Vil ég í því sambandi vísa til þeirra umræðna sem fóru fram fyrr á þessum fundi.