Jarðgangagerð á Austurlandi

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 12:42:43 (2187)

     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Eins og fram kom hjá fyrirspyrjanda fékk ég samhljóða fsp. í hendur á síðasta þingi. Ég svaraði henni á þann veg að nefndin hefði ætlað sér að skila áliti á sl. vetri en af því hefur ekki orðið eins og hér hefur verið rakið. Ég hef eins og áður fengið upplýsingar um að það sé góður vilji nefndarinnar að henni takist að ljúka störfum á þessum vetri og formaður nefndarinnar metur það svo að enn sjái fyrir endann á störfum nefndarinnar.
    Ég rifja það upp að engin samþykkt langtímaáætlun liggur fyrir. Alþingi hefur ekki samþykkt langtímaáætlun og merkingarlaust að vitna til áætlunar sem ekki er til. Á hinn bóginn var gert ráð fyrir því í áætlun sem forveri minn lagði fram á síðasta þingi sínu sem samgrh. að framkvæmdir við Austfjarðagöng gætu hafist í lok annars tímabils, þ.e. á árunum 1997--1998. Það var alveg í lok tímabilsins þannig að allur þunginn af verkinu ætti þá að fara yfir á þriðja tímabil. Einnig var gert ráð fyrir því að greiða að fullu þær skuldir sem samkvæmt þál. sem samþykkt var á Alþingi hefðu fallið vegna Vestfjarðaganga.
    Á síðasta þingi lét ég í ljós þá skoðun mína við umræður um fsp. þá að undirbúning og rannsóknir ætti að miða við þá tímasetningu, þ.e. að framkvæmdir gætu hafist í lok næsta áætlunartímabils þannig að ekki þurfi að stranda á þeim atriðum þegar málið kemur til ákvörðunar Alþingis við endurskoðun vegáætlunar.
    Ég hef einnig ítrekað þetta sjónarmið mitt við nefndina. Mér er sagt að þrátt fyrir þær tafir sem orðið hafa á útkomu skýrslu nefndarinnar sé nægur tími til stefnu til að ljúka rannsóknum og öðrum undirbúningi í tæka tíð. Ég hygg raunar að þingmönnum Austfirðinga sé þetta allt kunnugt jafn vel og mér. Nefndin hefur miðað störf sín við að reyna að ljúka þeim sem fyrst. Ég hygg að öllum þingmönnum Austfirðinga sé jafnframt kunnugt að Vegagerðin hefur miðað undirbúning og athuganir við að hægt verði að standa við hin fyrri markmið sem síðasta ríkisstjórn setti í þessum efnum og ekki þurfi að stranda á undirbúningnum þegar ákvörðun verður tekin um framhaldið.

    En ég tek fram að engin fyrirmæli um þessi efni liggja fyrir frá Alþingi.