Jarðgangagerð á Austurlandi

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 12:46:23 (2188)

     Jón Kristjánsson :
    Frú forseti. Varðandi það mál sem hér er til umræðu vil ég taka fram að það er mjög áríðandi að fá tillögur jarðganganefndar sem fyrst. Ég vil einkum undirstrika við þessa umræðu að það er nauðsynlegt að við þá röð sem miðað hefur verið í jarðgangaframkvæmdum verði staðið. Við Austfirðingar reiknuðum með því þegar var farið í jarðgöng á Vestfjörðum að við yrðum næstir. Ég vil einnig láta það koma fram að ég hef alltaf haft fyrirvara um að það er erfitt og vekur óvissu að ekki verði samfella í framkvæmdunum. Ef jarðgangaframkvæmdir falla niður um eitt ár, tvö ár eða fleiri er framhaldið óvíst. Þess vegna vil ég að sú afstaða verði endurskoðuð og samfella verði í jarðgangaframkvæmdum.