Jarðgangagerð á Austurlandi

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 12:49:07 (2190)

     Fyrirspyrjandi (Einar Már Sigurðarson) :
    Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin þó vissulega hefði verið ánægjulegra að heyra skýrar um það hvenær nefndin stefnir að því að ljúka störfum því þetta svar er býsna líkt því sem barst um svipað leyti í fyrra. Ég vil vekja athygli hæstv. ráðherra á því að auðvitað starfar nefndin á hans ábyrgð og það er í hans verkahring að ýta við henni. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að hvetja hann sérstaklega til þess.
    Ég vil einnig nota tækifærið og taka undir með hv. þm. sem hafa lagt áherslu á að það er auðvitað mjög nauðsynlegt að samfella verði í jarðgangagerð hér á landi, bæði vegna þeirrar verkkunnáttu og mikils tækjakosts sem þá nýist. Ég vona að hæstv. ráðherra lýsi því að hann sé sammála okkur um þetta mál.
    Ég vil einnig nota tækifærið og bera undir hann ummæli sem birtust í því ágæta vikublaði Austurlandi í síðustu viku. Þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Jónas Hallgrímsson, formaður samgöngunefndar Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, segir að samgrh. hafi lýst því yfir að áhugi samgönguyfirvalda standi til alls annars en að bora hér í gegnum fjöll.``
    Ég vona svo sannarlega að hér sé um misskilning að ræða og þetta sé ekki rétt eftir haft og hæstv. samgrh. hafi aldrei lýst þessari skoðun sinni og við fáum hér á eftir að heyra allt annað og hann taki hér undir með öðrum og telji það mjög brýnt að samfella verði í jarðgangagerð á landi hér.
    Rétt undir lokin, virðulegi forseti, langar mig til að hafa eftir örstutt ummæli sem viðhöfð voru við svör við svipaðri fsp. fyrir rétt rúmu ári síðan. Þá sagði hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson m.a., með leyfi forseta:
    ,,Ég vil endilega að sú skoðun mín komi fram að taka þurfi þessa tímasetingu til endurskoðunar ef byggðastefna ríkisstjórnarinnar á að standa fyrir sínu.``