Staða loðdýrabænda

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 13:15:56 (2208)

     Fyrirspyrjandi (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir ):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans sem lýsa því að nefndin hefur lokið störfum og lagt fram ákveðnar tillögur til lausnar á vanda loðdýrabænda. Reyndar mun það ekki leysa allan þeirra vanda þar sem eftir standa bankalán en þau hafa í raun og veru verið fryst vegna þess að hvorki Stofnlánadeildin eða Ríkisábyrgðasjóður hafa getað gefið ákveðið svar um það hvernig að þessum málum yrði unnið.
    Ég tel þessar tillögur til mikilla bóta og vænti þess að í gang muni fara það starf sem þarf til að koma þeim í framkvæmd. Auðvitað vænti ég þess að það náist gott samstarf á milli hæstv. ríkisstjórnar og Stofnlánadeildar landbúnaðarins til þess að fylgja því máli eftir að það verði til hagsmuna fyrir þá bændur sem bíða eftir úrlausnum í sínum málum.