Staða loðdýrabænda

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 13:18:09 (2210)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Eins og ég hélt að þingmönnum væri kunnugt er þetta mál þannig vaxið að þau veð sem Ríkisábyrgðasjóður tók fyrir þeim ábyrgðum sem hann veitti loðdýrabændum vegna skuldbreytinga sem gerðar voru fyrir, ég man ekki hvort það var 1989, eru einskis virði í flestum tilvikum og fjárhagur flestra loðdýrabænda sem ríkisábyrgð fengu þannig að ekki er við því að búast að þessi lán greiðist nema seint og illa. Þess vegna metur ríkisstjórnin það svo að það sé eðlilegast og hreinlegast að Ríkisábyrgðasjóður taki þessi lán á sig. Auðvitað losna þessi veðbönd þá að því sama marki. Hins vegar gefur það ekki öðrum rúm því að þessi veðbönd eru aftar en svo að öðrum gagnist.
    Þess mun hins vegar verða gætt í framkvæmdinni að slík lausn á veðböndum færi ekki rétt annarra upp þannig að loðdýrabóndi verði jafnilla staddur eftir sem áður.
    Í öðru lagi vil ég taka fram að í þeirri nefnd sem lagði grunninn að þeirri samþykkt sem ríkisstjórnin samþykkti sat m.a. framkvæmdastjóri Stofnlánadeildar landbúnaðarins, Leifur Jóhannesson. Í tillögu nefndarinnar segir m.a.: ,,Jöfnunargjald á loðdýrafóður verði greitt áfram á þessu ári``, þ.e. þessu ári

sem nú er, ,,og næsta með sama hætti og á árinu 1990.`` Sú hugsun var því komin inn áður um það.
    Hvort samráð hafi verið haft við Stofnlánadeildina vil ég segja að til viðbótar því að framkvæmdastjóri Stofnlánadeildar kom beint að störfum nefndarinnar komu eftirfarandi menn á fund nefndarinnar: Guðni Ágústsson, formaður stjórnar Stofnlánadeildar og Búnaðarbankans, Stefán Pálsson, bankastjóri Búnaðarbanka og fer með stjórn Stofnlánadeildar, Jón Helgason, stjórnarmaður Stofnlánadeildar, og Þórólfur Sveinsson, stjórnarmaður Stofnlánadeildar. Fyllsta samráð var þannig haft við Stofnlánadeildina.
    Þar sem ég sé ekki ástæðu til þess, hæstv. forseti, að bera af mér sakir lýk ég máli mínu.