Starfsskýrslur Ríkisendurskoðunar 1990 og 1991

53. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 13:36:20 (2212)

     Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Samkvæmt 12. gr. laga nr. 12/1986, um Ríkisendurskoðun, ber Ríkisendurskoðun árlega að semja heildarskýrslu um störf sín á liðnu almanaksári og leggja fyrir Alþingi. Starfsskýrslur stofnunarinnar fyrir árin 1990 og 1991 voru í samræmi við þessi lagaákvæði lagðar fram á Alþingi á tilsettum tíma. Á hinn bóginn hefur eigi gefist tími til að gera grein fyrir þeim hér á hv. Alþingi fyrr en nú.
    Ég mun hér á eftir fara örfáum orðum um starfsemi Ríkisendurskoðunar á sl. tveimur árum og mun í því sambandi stikla á örfáum atriðum sem fram koma í starfsskýrslum stofnunarinnar frá þessum tveimur árum. Fyrst þykir mér þó rétt að geta þess að liðlega 60 ár eru liðin frá því að fyrstu lög um bókhald og endurskoðun hjá íslenska ríkinu voru sett. Það var á árinu 1931.
    Þegar Stjórnarráð Íslands var sett á laggir í kjölfar heimastjórnarinnar 1904 samanstóð það af þremur skrifstofum. Meðal annarra verkefna sem einni skrifstofunni var falið að gegna var að endurskoða landsreikninga. Við fullveldisstofnunina árið 1918 voru á sama hátt sett á laggir þrjú ráðuneyti og skyldi endurskoðun ríkisreiknings framkvæmd af starfsmönnum fjmrn. Það var síðan með lögum nr. 61/1931, um ríkisbókhald og endurskoðun, að komið var á fót sérstakri endurskoðunardeild í fjmrn. undir stjórn aðalendurskoðanda ríkisins er starfaði beint undir fjmrh.
    Sú skipan endurskoðunar hjá íslenska ríkinu sem tók gildi á árinu 1931 var að mestu óbreytt að formi til þar til 1. jan. 1987 þegar lög nr. 12/1986, um Ríkisendurskoðun, tóku gildi. Með lögum nr. 12/1986 var stjórnsýsluaðstaða Ríkisendurskoðunar gerð sjálfstæðari en áður með því að færa hana frá Stjórnarráðinu til Alþingis. Þá var Ríkisendurskoðun með lögum falin aukin verkefni. Helstu verkefni stofnunarinnar eru þessi: Endurskoðun ríkisreiknings, endurskoðun reikninga fyrirtækja og stofnana sem ríkissjóður á að hálfu eða meira, þar með talin hlutafélög og ríkisbankar, framkvæmd stjórnsýsluendurskoðunar, eftirlit með framkvæmd fjárlaga og þjónusta við Alþingi.
    Þau sex ár sem liðin eru frá því að núgildandi lög um Ríkisendurskoðun tóku gildi er ljóst að störf stofnunarinnar hafa tekið talsverðum breytingum. Þar kemur fyrst og fremst til að nú eru álit og skýrslur stofnunarinnar lagðar fram á Alþingi og þar með gerðar opinberar. Þessi skipan hefur ótvírætt gefið Alþingi fyllri upplýsingar um stöðu og þróun fjármála ríkisins sem hefur m.a. skapað því betri aðstöðu til að takast á við þau vandamál sem við er að fást í fjármálum hins opinbera.
    Það er afdráttarlaus skoðun mín að sú skipan sem upp var tekin með lögunum frá 1986 hafi gefist vel. Sjálfstæði stofnunarinnar var treyst. Eftirlitshlutverk hennar hefur verið virkara og niðurstöður hafa haft aukna þýðingu.
    Á árinu 1991 flutti Ríkisendurskoðun starfsemi sína að Skúlagötu 57 í Reykjavík. Allt frá árinu 1967 hafði stofnunin leigt húsnæði að Laugavegi 105 sem var fyrir nokkru síðan orðið helst til þröngt. Hin nýju húsakynni eru vistleg og þjóna starfseminni vel.
    Á árunum 1990 og 1991 urðu tiltölulega litlar breytingar á starfsmannafjölda og starfsmannahaldi stofnunarinnar. Í lok ársins 1990 voru starfsmenn 40 en í lok ársins 1991 voru þeir á hinn bóginn 39 og þar af þrír í hálfu starfi. Ársverkum hafði því fækkað um eitt á árinu 1991 frá því sem var á árinu á undan.     Skv. 4. gr. laga um Ríkisendurskoðun er stofnuninni heimilt að fela óháðum löggiltum endurskoðendum að vinna að einstökum verkefnum sem stofnuninni eru falin. Þessa heimild hefur stofnunin orðið að nýta sér í verulegum mæli þar sem starfsmannafjöldi og aðstaða að öðru leyti takmarkar möguleika stofnunarinnar til að vinna að endurskoðun reikninga margra ríkisfyrirtækja og stofnana í B-hluta.
    Þetta vandamál er leyst með því að fela óháðum, löggiltum endurskoðendum umrædd verkefni eftir því sem aðstæður krefjast á hverjum tíma. Í árslok 1991 rann úr gildi 31 samningur við löggilta endurskoðendur um endurskoðun 80 ríkisfyrirtækja og stofnana. Nú hafa hins vegar verið gerðir nýir og ítarlegri samningar við flesta þá endurskoðendur sem áður önnuðust þessi verkefni.
    Starfsemi Ríkisendurskoðunar má skipta í þrjá meginþætti. Í fyrsta lagi fjárhagsendurskoðun, í öðru lagi þjónustu við Alþingi og yfirskoðunarmenn og í þriðja lagi verkefni á sviði stjórnsýsluendurskoðunar.
    Fjárhagsendurskoðun lýtur einkum að því að fylgjast með rekstri og fjárvörslu ríkisstofnana. M.a. kannar Ríkisendurskoðun hvort fjárráðstafanir þeirra samrýmast lagaheimildum, viðteknum venjum eða starfsreglum svo og hvort hagkvæmni og hagsýni sé gætt í rekstri. Helstu niðurstöður þeirrar vinnu birtist í endurskoðunarskýrslu er fylgir ríkisreikningi hlutaðeigandi ára. Ríkisendurskoðun veitti fjárln., áður fjárveitinganefnd, aðstoð á sl. tveimur árum með svipuðum hætti og áður var. Verkefnin hafa tengst vinnu við afgreiðslu fjárlagafrv. og ýmiss konar upplýsingaöflun og upplýsingagjöf, bæði fyrir nefndina og einstaka nefndarmenn.

    Á árinu 1990 bárust stofnuninni þrjár beiðnir frá forseta Alþingis um álitsgerðir um tiltekin mál í samræmi við óskir einstakra þingmanna eða þingflokka, sbr. 3. gr. laga um Ríkisendurskoðun. Í samræmi við þessar beiðnir skilaði stofnunin skýrslu um fjárhagsstöðu Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna, greinargerð um undirbúning og framkvæmd við nýja virkjun við Búrfell og loks greinargerð um húsbréfakerfið. Ein beiðni um álitsgerð af þessum toga barst á árinu 1991 og var þar um að ræða skýrslu um sölu fjmrh. á meiri hluta hlutabréfa í Þormóði ramma hf. á Siglufirði.
    Á sviði stjórnsýsluendurskoðunar er helst að geta þriggja verkefna sem sýnilega hafa verið mjög viðamikil á liðnum tveimur árum. Fyrst er að nefna skýrslu um stjórnunarsvið Pósts og síma frá því í maí 1990. Önnur fjallaði um Ríkisspítalana og var skýrsla um það verkefni gefin út í mars 1991 og hin þriðja um Tryggingastofnun ríkisins, samanber skýrslu sem gefin var út í desember 1991.
    Á árinu 1990 birti stofnunin tvær skýrslur og greinargerðir um afkomu ríkissjóðs og framkvæmd fjárlaga á því ári. En meðal lagaskyldna stofnunarinnar er að hafa eftirlit með framkvæmd fjárlaga eins og áður er fram komið.
    Á árinu 1991 birti stofnunin á hinn bóginn fimm skýrslur og greinargerðir um afkomu ríkissjóðs og framkvæmd fjárlaga á því ári.
    Á árinu 1991 bárust stofnuninni auk beiðna frá Alþingi, beiðni frá forsrn., heilbr.- og trmrn., fjmrn. og Lánasjóði ísl. námsmanna um sérstaka úttekt á tilteknum sjóðum og stofnunum og varð stofnunin við þeim öllum.
    Að beiðni forsrn. var gerð ítarleg úttekt á fjárhagsstöðu Byggðastofnunar og Framkvæmdasjóðs Íslands. Fjmrn. fór fram á úttekt á fjárhagsstöðu Ríkisábyrgðasjóðs og virði veittra lána ríkissjóðs. Heilbr.- og trmrn. óskað eftir athugun á rekstri Heilsuhælis Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði. Og loks bað stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna um úttekt á fjárhagsstöðu sjóðsins.
    Þá má geta þess að samkvæmt lögum nr. 19/1988, um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, skal stofnunin halda skrá yfir heildartekjur og gjöld svo og eignir og skuldir allra skráðra sjóða og stofnana svo og athugasemdir sínar við framlagða reikninga þeirra.
    Í samræmi við 6. gr. laganna hófst á síðasta ári í samvinnu við dómsmrn. vinna við að leggja niður sjóði sem áttu 50.000 kr. eða minna og sameina þá öðrum sjóðum sem höfðu svipuð markmið. Á árinu 1991 var lagður niður 71 sjóður af þessum toga en 14 nýir bættust við. Um síðustu áramót voru 977 slíkir sjóðir á skrá.
    Á árinu 1990 voru eftirtaldar skýrslur og greinargerðir gerðar: Skýrsla um starfsemi Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina, skýrsla um stjórnsýsluendurskoðun á stjórnunarsviði Pósts og síma, skýrsla um framkvæmd fjárlaga 1989, skýrsla um framkvæmd fjárlaga á tímabilinu 1. jan. til 30. júní 1990, skýrsla um fjölda stöðugilda og launakostnað A-hluta stofnana ríkisins, skýrsla um fjárhagsstöðu Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna, skýrsla um stjórnsýsluendurskoðun hjá Launaskrifstofu ríkisins, greinargerð um undirbúning og framkvæmdir við nýja virkjun við Búrfell, greinargerð um húsbréfakerfið og reglur um skilamat fyrir opinberar framkvæmdir.
    Á árinu 1991 voru á hinn bóginn unnar eftirfarandi skýrslur af hálfu Ríkisendurskoðunar: Skýrsla um sölu á hlutabréfum ríkisins í Þormóði ramma hf., skýrsla um skuldbreytingar opinberra gjalda frá 1. júní 1989 til ársloka 1990, skýrsla um stjórnsýsluendurskoðun hjá Ríkisspítölum, skýrsla um Lánasjóð ísl. námsmanna, samanburður á fjölda stöðugilda og launakostnað hjá A-hluta stofnunum ríkisins, skýrsla um athugun á rekstri Heilsuhælis Náttúrulækningafélags Íslands, Hveragerði, í samræmi við bréf heilbr.- og trmrh. frá 11. des. 1991, skýrsla yfirskoðunarmanna ríkisreiknings og Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings fyrir árið 1989, skýrsla um framkvæmd fjárlaga fyrir árið 1990, greinargerð um afkomu A-hluta ríkissjóðs í janúar til mars 1991 ásamt mati á afkomuhorfum í árslok 1991, skýrsla um framkvæmd fjárlaga á fyrsta ársþriðjungi 1991, yfirlit um afkomu A-hluta ríkissjóðs janúar til ágúst 1991, skýrsla um framkvæmd fjárlaga til septemberloka 1991, skýrsla um stjórnsýsluendurskoðun hjá Tryggingastofnun ríkisins, greinargerð um rekstur og stöðu Framkvæmdasjóðs aldraðra á árinu 1990, skýrsla um fjárhagsstöðu Byggðastofnunar og Framkvæmdasjóðs Íslands, skýrsla um Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina, skýrsla um fjárhagsstöðu Ríkisábyrgðasjóðs ásamt úttekt á endurlánum ríkissjóðs og veittum löngum lánum ríkissjóðs.
    Nokkrar af skýrslum Ríkisendurskoðunar á þessum tveimur liðnum árum fengu verulega umfjöllun á opinberum vettvangi. Má þar einkum nefna skýrslu um sölu hlutabréfa ríkissjóðs í Þormóði ramma hf. og um fjárhagsstöðu Byggðastofnunar og Framkvæmdasjóðs Íslands.
    Nokkurrar gagnrýni hefur gætt varðandi niðurstöður stofnunarinnar að því er þessar skýrslur varðar. Hvað sem um þá gagnrýni má segja er ekki hægt að horfa frm hjá því að meginniðurstöður stofnunarinnar í nefndum skýrslum hafa ekki verið hraktar. Þau viðfangsefni sem hér um ræðir og eru mörg hver mjög vandasöm og viðkvæm. Eðli málsins samkvæmt byggja niðurstöður í skýrslum af þessu tagi á ýmsum gefnum forsendum og það má því ævinlega búast við því að þær forsendur geti verið með þeim hætti að um þær séu skiptar skoðanir. Hvað sem slíkum skoðanaskiptum líður eða skoðanamun þá verður ævinlega að gera kröfu til þess að gagnrýni sé byggð á faglegum og málefnalegum grunni. Ég tel ótvírætt að á slíkum grunni hafi stofnunin starfað og birt sínar niðurstöður og ég er þess enn fremur fullviss að á þeim sama grunni muni stofnunin starfa áfram að sínum verkefnum sem eru þýðingarmikil fyrir Alþingi og fyrir þjóðfélagið í heild.

    Ég vil svo að lokum fyrir hönd forseta Alþingis, forsætisnefndar og væntanlega allra hv. alþm. færa Ríkisendurskoðun þakkir fyrir vel unnin störf á síðustu tveimur árum.