Starfsskýrslur Ríkisendurskoðunar 1990 og 1991

53. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 14:08:18 (2214)

     Kristín Ástgeirsdóttir (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Nú eru hér á dagskrá skýrslur Ríkisendurskoðunar fyrir árin 1990 og 1991. Næsta

mál á dagskrá er skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 1991. Þau mál sem greint er frá í þessum skýrslum snerta flestöll ráðuneytin. Að mínum dómi eru meginspurningarnar, sem við alþingismenn erum að fjalla um við meðferð þessara skýrslna, hvernig málum er fylgt eftir. Við fáum þessar skýrslur í hendur og sú spurning hlýtur að vakna: Hvað er gert við þær? Hvernig er niðurstöðunum fylgt eftir? Ég verð að segja það sem mína skoðun að mér finnst það fullkomlega óeðlilegt þegar löggjafarvaldið fylgist með framkvæmdarvaldinu í gegnum þessar skýrslur að fulltrúar framkvæmdarvaldsins skuli ekki vera viðstaddir. Hér er ekki einn einasti ráðherra og ég sé nánast engan tilgang í því að ræða þessar skýrslur án þess að ríkisstjórnin sé viðstödd. Ég er búin að fara í gegnum þessar skýrslur. Ég er búin að punkta hjá mér ótal spurningar sem varða þau mál sem koma fram í þessum skýrslum og ég vil fá að vita hvernig þeim hefur verið fylgt eftir. Þar af leiðandi sé ég ekki tilgang í að ræða skýrslurnar eins og hér háttar nú málum, virðulegi forseti.