Starfsskýrslur Ríkisendurskoðunar 1990 og 1991

53. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 14:10:26 (2216)

     Svavar Gestsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég tek eindregið undir orð hv. 18. þm. Reykv. Staðreyndin er sú, eins og hv. 8. þm. Reykn. kom inn á áðan, að samkvæmt þingsköpum er ekki gert ráð fyrir neinum eðlilegum farvegi til þess að fjalla um niðurstöður Ríkisendurskoðunar. Það er náttúrlega óþolandi aðstaða fyrir Ríkisendurskoðun sem stofnun að búa við þær kringumstæður. Það dugir auðvitað ekkert fyrir þingmenn við þessar aðstæður að setja á langar ræður til að gagnrýna Ríkisendurskoðun. Hún er að vinna sitt verk en í raun á hún enga formlega aðild að vettvangi til þess að ræða mál við þingið. Ég tel að menn eigi auðvitað ekki bara að vera með ráðherrana. Ég tel reyndar að það sé ekki nóg að hafa fjmrh. Ég tel að hérna eigi líka að vera heilbrrh. vegna þess að hér er mjög ítarleg skýrsla um Tryggingastofnun ríkisins, um Ríkisspítalana, um Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna, ítarleg skýrsla um Lánasjóð ísl. námsmanna og þannig mætti lengi telja. Það verður auðvitað að haga málum þannig og ég vil beina því til forsætisnefndarinnar að það skapist vettvangur til þess að það sé hægt að ræða efnislega um niðurstöður Ríkisendurskoðunar í þinginu.
    Ég hef, virðulegi forseti, mínar ákveðnu hugmyndir um það hvernig ég tel að væri skynsamlegast að koma því fyrir. Ég hefði talið skynsamlegast að það væri verkefni yfirskoðunarmanna ríkisreikninga að taka þessar skýrslur til meðferðar og tryggja að þær fái efnislega meðhöndlun hjá öllum fagnefndum og komi svo aftur hingað til meðferðar. Það teldi ég langsamlega heppilegustu leiðina. Til þess þarf hins vegar breytingu á lögum og breytingu á þingsköpum en núverandi kerfi er algerlega vonlaust, sérstaklega fyrir stofnunina Ríkisendurskoðun. Ég tel að við eigum ekki að sýna Ríkisendurskoðun þá óvirðingu, stofnun sem er að vinna vel fyrir okkur að flestöllu leyti, að við ræðum þessar skýrslur öðruvísi en að þeir ráðherrar, sem hér hafa verið nefndir bæði af mér og öðrum, séu viðstaddir.
    Á þetta vil ég leggja áherslu, virðulegi forseti, og fara fram á að forsætisnefndin íhugi aðra umgjörð um umræðu um skýrslu Ríkisendurskoðunar en hér hefur verið sett upp í dag án þess að ég sé á neinn hátt að gera lítið úr því ágæta máli sem hv. þm. Pálmi Jónsson flutti af hálfu forsætisnefndarinnar. Auðvitað situr forsætisnefndin ekki fyrir svörum að því er varðar framkvæmd á athugasemdum Ríkisendurskoðunar um einstök atriði.