Starfsskýrslur Ríkisendurskoðunar 1990 og 1991

53. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 14:14:48 (2220)

     Kristinn H. Gunnarsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þær ábendingar sem hér hafa komið fram um viðveru ráðherra, einkum þeirra sem hafa forræði yfir ráðuneytum er skýrslur Ríkisendurskoðunar lúta að að einhverju

leyti. Ég tel t.d. bráðnauðsynlegt varðandi byggingarsjóðina að hæstv. félmrh. verði viðstaddur til þess að hægt sé að eiga skoðanaskipti við ráðherrann og inna hann eftir einstökum efnisatriðum.
    Þá vil ég líka benda á að að lokinni þessari umræðu um skýrslu Ríkisendurskoðunar er á dagskrá skýrsla umboðsmanns Alþingis. Þar er vikið að fjölmörgum málum sem við þingmenn munum væntanlega koma inn á. Þau lúta að býsna mörgum ráðherrum og ég hef búið mig sérstaklega undir það í þessari umræðu að taka upp eitt atriði sem umboðsmaður Alþingis er að taka upp í annað sinn í sinni skýrslu, ábendingar til Alþingis um úrbætur í málum sem lúta að félmrn. Ég tel nauðsynlegt að sá ráðherra verði viðstaddur þá umræðu og e.t.v. dómsmrh. líka. Ég vil því spyrja hæstv. forseta hvort hann geti upplýst hvaða ráðherrar verða viðstaddir umræður um þessar skýrslur í dag.