Starfsskýrslur Ríkisendurskoðunar 1990 og 1991

53. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 14:37:26 (2225)

     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Herra forseti. Það er auðvitað rétt hjá hv. 3. þm. Vestf. að dagvistarmál heyra skipulagslega undir sveitarstjórnirnar en þegar þær sinna ekki sínu hlutverki á fullnægjandi hátt vaknar auðvitað spurningin: Hvað á að gera? Er það algert skilyrði að allar dagvistarstofnanir séu á höndum sveitarfélaga? Hér hefur fólk verið að reyna ýmsar leiðir í rekstri dagvistarstofnana. Ég tel ekkert óeðlilegt við það að ýmsar stofnanir og vinnustaðir komi þar inn í svo lengi sem því fylgir ekki einhver þvingun eða að stofnanir hafi stjórn á sínu starfsfólki í gegnum sínar dagvistarstofnanir. En það er ekkert sem mælir á móti því að mínum dómi að það séu fleiri form á rekstri dagvistarstofnana en að sveitarfélögin reki þau. Ég dreg í efa að það sé á verksviði Ríkisendurskoðunar að gagnrýna það þó að stofnanir reyni að bjarga sínu starfsfólki með slíkum rekstri.