Starfsskýrslur Ríkisendurskoðunar 1990 og 1991

53. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 14:50:17 (2230)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Mig langar aðeins til að gera athugasemd um málsmeðferð hér í dag. Hér er verið að ræða skýrslur stofnana sem heyra undir Alþingi. Og það er auðvitað sjálfsagt að slíkar skýrslur liggi fyrir og séu til umræðu. Þess var sérstaklega óskað að ég kæmi hingað í dag og væri við þessa umræðu. Og varð ég að sjálfsögðu við því en þá ber svo við að umræðunni er frestað. Hér liggja fyrir nokkrar spurningar sem ég hef verið beðinn um að svara og mér skilst að hv. 8. þm. Reykn. hafi einnig beint til mín fyrirspurnum og athugasemdum sem sjálfsagt er að svara. Og ég vil að það komi fram að ég er tilbúinn til þess að halda þessum umræðum áfram og hefði gjarnan kosið að þeir sem hófu umræðuna hefðu verið viðstaddir en hlypu ekki á brott um leið og sá ráðherra kemur sem beðinn er að koma og þurfti að gera breytingar á sinni dagskrá vegna þess að um það var sérstaklega beðið að hann kæmi hingað.
    Ríkisendurskoðun er stofnun sem heyrir undir Alþingi, þjónar reyndar öðrum aðilum sérstaklega þegar um er beðið. Aðfinnslur og ábendingar Ríkisendurskoðunar eru ekki dómur í eðli sínu heldur ábendingar. Og það er ekkert sem segir sérstaklega að einstakir ráðherrar, hver sem í hlut á þurfi að fara að þeim

aðfinnslum, ábendingum eða tillögum og niðurstöðum, allra síst þegar um það er að ræða að viðkomandi ráðherrar biðja sjálfir um skýrsluna. En mér sýnist sá misskilningur vera hér uppi í ræðum hv. þm.
    Ég vildi, hæstv. forseti, að það kæmi fram að það er ekki að minni beiðni sem þessari umræðu er frestað.