Skýrsla umboðsmanns Alþingis 1991

53. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 15:54:44 (2236)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það var ekkert nýtt í andsvari hæstv. ráðherra sem ekki hefur þegar komið fram í skýrslu umboðsmanns Alþingis og hann hefur haft til athugunar þegar hann hefur metið að hvaða niðurstöðu hann hefði átt að komast. Niðurstaða hans er m.a. varðandi þetta sérstaka mál, sem ég reifaði aðeins um gatnagerðargjaldið, en um það fjallar umboðsmaður í skýrslu sinni frá 1989. Hann bendir á að gatnagerðargjöld eru lögð á samkvæmt reglugerð sem ráðherra staðfestir. Hamm segir svo, með leyfi forseta: ,,Tel ég að ekki fái staðist að sveitarstjórn hafi lokaorð á vettvangi stjórnsýslu um lögmæti álagningar sem samþykkt hefur verið eftir að samþykkt hefur verið staðfest. Má reyndar þar við bæta að það fari í bága við það sem almennt tíðkast um málskot á sviði skattheimtu, að ekki væri kostur á að bera lögmæti álagningar undir annað og æðra stjórnvald en það sem lagt hefur á gjald í upphafi.`` Enn fremur segir hann að það fái ekki staðist að ráðherra sé laus allra mála af samþykkt sem hann hefur sjálfur staðfest og beri því ábyrgð á.
    Hvað varðar það sem fram kom í máli ráðherra um hina þröngu túlkun sem byggist á gagnályktun sem hún skýrði frekar, þá var ég einmitt að vitna til álitsgerðar eða stjórnarfarsrits sem ber nafnið Stjórnarfarsréttur eftir Ólaf Jóhannesson. Þar kemur skýrt fram að þessi gagnályktun er ekki rétt. Ég vil gjarnan að ráðuneytið gefi okkur upplýsingar um það hvaða lögfræðispekinga þau hafa yfir að ráða sem taka Ólafi Jóhannessyni fram. Ég vil árétta að það er nauðsynlegt að ráðuneytið fari að áliti umboðsmanns Alþingis.