Skýrsla umboðsmanns Alþingis 1991

53. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 16:07:25 (2239)

     Frsm. allshn. (Björn Bjarnason) :
    Herra forseti. Ég átti eftir að ljúka máli mínu sem frsm. allshn. um þessa skýrslu. Þar ætlaði ég einmitt að víkja að þeim atriðum sem hv. 5. þm. Vestf. nefndi og taldi að væri ástæða þess að það þyrfti að fresta þessum umræðum. Ég held að svo sé ekki. Eins og hv. 18. þm. Reykv. nefndi vakna spurningar hjá mönnum við lestur þessara skýrslna, sem þeir vilja fá ákveðin svör við hjá ráðherrum, er mjög einfalt mál fyrir hv. þm. að leggja fram fyrirspurnir til ráðherra samkvæmt þingsköpum og fá svör við þeim í fyrirspurnatímum. Mér finnst ekki unnt að gera þá kröfu til ráðherra að þeir séu viðstaddir mál eins og þetta, skýrslu umboðsmanns, þegar það er til umræðu hér í þinginu. Mér finnst ósanngjarnt að gera þá kröfu og mér finnst líka ástæðulaust að fresta þessum umræðum vegna þess að eins og kom fram í máli mínu í upphafi var þetta mál á dagskrá þingsins sl. vor. Þá var því miður ekki tími til að ræða það. Þetta mál var einnig á dagskrá þingsins vorið 1991 og þá gafst ekki tími til að ræða það. Mér finnst mjög bagalegt ef það þyrfti að fresta þessum umræðum núna og láta málinu vera ólokið á dagskrá þingsins um óákveðinn tíma. Ég skora á hv. þm. að draga þessa ósk til baka auk þess sem ég er sjálfur í stakk búinn til að svara fyrirspurnum hans að verulegu leyti því að ég á sæti í nefnd sem skipuð var af dómsmrh. til þess að huga að lögfestingu Mannréttindasáttmála Evrópu en að því laut spurning hv. þm. til dómmsrh. Þessi nefnd er að störfum. Hún er undir formennsku Ragnhildar Helgadóttur, fyrrv. ráðherra og þingmanns. Auk hennar sitja í nefndinni Markús Sigurbjörnsson prófessor, Eiríkur Tómasson lögfræðingur, Ragnar Aðalsteinsson lögfræðingur auk mín. Nefndin er að vinna sitt starf og mun skila ráðherranum áliti sínu og tillögum á næstu vikum. Ég þori ekki að segja hvenær. Þetta er miklu meira starf en menn höfðu ætlað í upphafi. Það þarf að fara í gegnum mikið af íslenskri löggjöf og kanna ýmsa þætti í okkar löggjöf, stjórnarfarsþáttum og stjórnskipunarháttum í tengslum við þetta og rannsaka starfshætti hjá Evrópuráðinu og Mannréttindadómstólnum. Þetta mál er til meðferðar hjá nefndinni og ég efast ekki um að eftir að nefndin hefur skilað áliti sínu muni ráðherrann taka tillögum hennar vel. Þær miða að því, eins og hv. þm. nefndi og kemur fram í skýrslum umboðsmanns, að eyða þeirri réttaróvissu sem skapast vegna þess að Mannréttindasáttmáli Evrópu hefur ekki verið lögfestur hér á landi.
    Í öðru lagi varðandi spurningu hv. þm. til hæstv. forsrh. um stjórnsýslulögin, þá er það, eins og hv. þm. gat um, í stefnuyfirlýsingu og starfsáætlun ríkisstjórnarinnar að slík lög skuli sett. Það var skýrt frá því í fréttum að það hefði verið sett niður nefnd vegna þess máls sem er að vinna að samningu frv. Í fylgiskjali, sem fylgdi stefnuræðu hæstv. forsrh., kemur fram að það er ætlun ríkisstjórnarinnar að leggja þetta frv. fram í þinginu í vetur.
    Ég vil eindregið mælast til þess við hv. þm. að hann dragi ósk sína um að fresta þessum umræðum um skýrslu umboðsmanns til baka þannig að við gætum lokið umræðunni. Ég tek undir það með hv. 18. þm. Reykv. að vakni upp spurningar, sem eðlilegt er, í sambandi við þessar skýrslur og umræðurnar sé eðlilegt að menn beini þeim til ráðherra eftir þeim leiðum sem gilda í þinginu um fyrirspurnir til ráðherra. Eins og við vitum svara ráðherrar því öllu hvort sem það er skriflega eða munnlega.
    Ég vil að lokum, virðulegi forseti, þakka þessar umræður. Ég tel að þær séu gagnlegar. Ég tel einnig að það hafi verið skynsamleg ákvörðun hjá forsætisnefndinni að vísa málinu til allshn. í ljósi þessara umræðna hér. Ef óskir eru um það að einstakir ráðherrar verði viðstaddir umræður í þinginu um þessar skýrslur væri hægt að undirbúa það betur í nefndinni áður en málið kemur á dagskrá svo ekki þurfi að koma til vandræða af því að ráðherrar eru fjarverandi sem ég tel ástæðulaust að kvarta undan að þessu sinni. Það hefur ekkert komið fram sem ekki hefur verið unnt að svara í umræðunum sjálfum.