Skýrsla umboðsmanns Alþingis 1991

53. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 16:12:41 (2240)

     Kristinn H. Gunnarsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Framsögumaður skýrslunnar hefur beint því til mín að draga til baka ósk mína um frestun á þessari umræðu þar til ráðherrar væru viðstaddir til að svara fyrirspurnum sem ég hefði til þeirra beint. Ég er tilbúinn til að skoða það með jákvæðu hugarfari að verða við þessari ósk. Frsm. svaraði fyrirspurnunum að nokkru leyti, að svo miklu leyti sem honum er kunnugt um það, þó að mér þyki það auvitað lakara að þeir sem spurningunni er beint til skuli ekki geta svarað sjálfir heldur þurfi að grípa til þess að skipa blaðafulltrúa.
    Ég vil segja um þá ábendingu að menn geti tekið upp spurningar sem vakna í umræðum og í skýrslunni sjálfri, farið með þær sem fyrirspurnir með venjubundnum hætti, að auðvitað er það hægt. En það er að mínu viti fremur óeðlileg leið. Það er einmitt tilgangur skýrslunnar, og það að hún skuli vera hér lögð fram til umræðu, að menn varpi spurningunum fram og fái svörin í umræðunni sjálfri. Menn eru að minnka vægi umræðunnar og draga úr þýðingu hennar með því að vísa spurningum sem vakna við lestur skýrslunnar yfir í annað form og á annan vettvang í raun og veru en umræðan er í sjálf. Ég tek því ekki undir það sem leið út úr því vandamáli sem skapast þegar ráðherrar eru ekki viðstaddir umræðu um skýrslu umboðsmanns Alþingis. Ég tel þvert á móti að við ættum að knýja á um það að ráðherrar væru viðstaddir umræðu um þessa skýrslu svo sem kostur er og helst allir, a.m.k. þeir sem eiga mál sem í skýrslunni er vikið að. Ég vil a.m.k. gera mitt til að mæta óskum þingmannsins og er alveg tilbúinn til að falla frá því að óska eftir frestun á umræðunni. En ég vil gjarnan, áður en ég geri það endanlega, fá upplýst hvert framhaldið verður að lokinni umræðunni. Verður skýrslunni vísað í einhverja þingnefnd sem tekur hana til umfjöllunar og skilar kannski af sér áliti eða er málinu lokið þegar umræðunni lýkur? Þetta vil ég að sé ljóst.