Sjóður til að styrkja efnilega íþróttamenn

53. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 16:19:10 (2243)

     Flm. (Ingi Björn Albertsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga á þskj. 176, 154. mál, um stofnun sjóðs til að styrkja efnilega íþróttamenn. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Guðni Ágústsson, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Steingrímur Hermannsson, Svavar Gestsson, Össur Skarphéðinsson, Guðmundur Hallvarðsson, Árni Johnsen, Stefán Guðmundsson, Eyjólfur Konráð Jónsson, Eggert Haukdal, Árni M. Mathiesen, Kristinn H. Gunnarsson, Finnur Ingólfsson og Sigbjörn Gunnarsson.
    Mál þetta er endurflutt. Það var var flutt á síðasta þingi, komst þá til nefndar og dvaldi þar í heila fimm mánuði. Það er því óhætt að líta svo á að málið hafi fengið verulega umfjöllun og að nefndarstarfi hljóti í raun og veru að vera lokið en sökum tímaskorts í vor náðist ekki að afgreiða málið. Þar sem málið er núna tiltölulega snemma á ferðinni hygg ég að það þurfi ekki að dvelja lengi inni í hv. þingnefnd.
    Frv. er ekki stórt í sniðum. Það er sex greinar og ég ætla að hlaupa yfir þær.
    1. gr. tekur á stofnun sjóðs sem er til að styrkja unga, efnilega íslenska íþróttamenn. Það ber kannski að geta þess í framhjáhlaupi að orðið ,,íslenska`` féll út úr fyrirsögn frv. Þar átti að standa ,,um stofnun sjóðs til að styrkja efnilega íslenska íþróttamenn``, en það kemur ekki að sök og mér þótti ekki ástæða til að láta prenta þingskjalið upp bara vegna þess.
    Í 1. gr. er sem sagt tekið á stofnun sjóðsins og hvert stofnféð skuli vera. Það á að vera samsvarandi árslaunum fjögurra háskólakennara. Þess ber að geta að það er eftir fyrirmynd laga um stórmeistara í skák sem þiggja þessi laun.
    Þá er getið um tilgang sjóðsins sem er að skapa efnilegum íþróttamönnum fjárhagslegan grundvöll til að helga sig íþrótt sinni.
    Í 2. gr. er þess getið að fjárveitingin skv. 1. gr. skuli í fyrsta sinn veitt í fjárlögum fyrir árið 1993. Það ber auðvitað að taka með fyrirvara og nefndin skoðar hvort það næst inn í fjárlög fyrir 1993. Ef nefndin vinnur hratt og vel ætti það að nást og verður væntanlega að leggja fram breytingartillögu við fjárlögin sem gerir ráð fyrir þessari upphæð. Hún mun vera eitthvað í kringum 5 millj. kr. Það er því ekki um háar tölur að ræða. Enda er það fyrst og fremst hugmynd flutningsmanna að gera þennan sjóð að veruleika og síðan að vinna að því í framtíðinni að efla hann og styrkja.
    Síðan segir í 2. gr. að þessi fjárveiting skuli ætluð í fjárlögum hvers árs og megi ekki nema lægri fjárhæð en greinir í 1. gr. og að fjárhæðina skuli endurskoða ár hvert við undirbúning fjárlaga með tillit til breytinga á launum háskólakennara.
    Í 3. gr. er fjallað um hverjir hafa rétt til greiðslu úr sjóðnum. Það eru þeir íþróttamenn sem að mati sjóðstjórnar hafa sýnt ótvíræðilega hæfileika í sinni íþróttagrein og þykja líklegir til afreka. Einnig að sérsambönd innan ÍSÍ skuli senda stjórn sjóðsins fyrir upphaf hvers fjárhagsárs tilnefningar um íþróttamenn er hljóta skulu styrk það ár.
    Í 4. gr. er getið um skipan sjóðstjórnar. Samkvæmt frumvarpstextanum mundi menntmrh. skipa stjórn til þriggja ára í senn og í henni sitji þrír menn, einn tilnefndur af framkvæmdastjórn ÍSÍ, einn af íþróttanefnd ríkisins og einn skipaður án tilnefningar og sé hann jafnframt formaður. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.
    5. gr. fjallar um það að menntmrh. setji reglugerð um framkvæmd laganna þar sem m.a. skal kveðið á um vörslu sjóðsins og úthlutun úr honum.
    Síðan er 6. gr., þessi hefðbundna um að lög þessi öðlist þegar gildi.
    Það var örlítið gagnrýnt í nefndinni sem fjallaði um málið á síðasta þingi að ekki voru umsagnir um hverja lagagrein. Flm. þá, sem voru 24, nálægt helmingur þingsins, fannst þetta afskaplega ljóst og nánast óþarfi að vera með skýringar um hverja grein, enda ekki ávallt svo að skýringar séu við greinar, sérstaklega í litlum og auðskiljanlegum frv. Úr þessu var bætt og núna eru athugasemdir um hverja grein frv. þannig að ekki ætti það að tefja starf nefndarinnar að þessu sinni.
    Ég tel tæplega þarft, virðulegi forseti, að fjalla mikið meira um frv. Ég tel þetta sé afar brýnt mál. Gildi íþrótta tel ég öllum ljóst hvort sem litið er á uppeldisþáttinn sem íþróttastarfið fer með eða alla þá undirþætti sem þar koma fram. Má nefna hluti eins og stundvísi, hreinlæti, aga, hvernig menn vinna saman í hóp, tillitssemi við náungann og þar fram eftir götum. Það liggur líka ljóst fyrir að þeir sem leggja stund á íþróttir eru almennt betri námsmenn. Það hefur komið fram í nýlegri könnun. Það er heilbrigðara

og hraustara fólk og þar af leiðandi minni byrði á þjóðfélaginu hvað það varðar. Forvarnastarfið er öllum ljóst og ekki vanþörf á að efla það hið mesta. Ég held að það sé þingmönnum ljóst sem ekki gera annað en þó að lesa blöðin og fylgjast með þeim hörmungum sem nú dynja yfir dag eftir dag vegna fíkniefnamála og annarrar óreglu. Ég tel að það sé öllum ljóst. Um þetta má náttúrlega setja langa ræðu.
    Landkynningarþáttur íþróttanna er geysilegur. Við erum öll afar stolt af þeim íþróttamönnum okkar sem standa sig vel á erlendri grund. Það er kannski óþarfi að nefna einhver nöfn en við getum nefnt nafn eins og Ásgeir Sigurvinsson. Við getum nefnt fatlaða frjálsíþróttamenn, sundmenn sem sópuðu inn gullverðlaunum, silfurverðlaunum og bronsverðlaunum sl. sumar á Spáni og hvort menn hafi ekki verið stoltir þegar þjóðsöngurinn var spilaður og fáninn dreginn að hún og hvort það hafi ekki verið landkynning þegar tugir milljóna horfðu á það. Ég held að landkynning gerist ekki mikið betri. (Gripið fram í.) Hæstv. utanrrh. vill að hér sé sérstaklega getið Jóns Páls Sigmarssonar og mér er mikil ánægja að gera það, enda hefur hann verið geysileg landkynning fyrir okkur og við erum auðvitað öll stolt af honum. Ég þakka ábendinguna.
    Frv. þetta er flutt í þeim tilgangi að við glötum ekki efnilegum íþróttamönnum en það erum við að gera í dag vegna þess að við styðjum ekki við bakið á þeim. Það er fjöldinn allur af efnilegum íþróttamönnum sem hafa ekki ráð á og hafa ekki þá hvatningu sem til þarf til þess að halda áfram á þeirri braut sem þeir hugsanlega hafa byrjað á. Fyrir utan hvatann til annarra að taka þátt í íþróttastarfi þegar þeir sjá að afreksfólk kemur fram.
    Eins og ég sagði áðan tel ég nefndinni ekkert að vanbúnaði að afgreiða þetta mál fljótt og vel. Nefndin eyddi í þetta mál fimm mánuðum á síðasta þingi jafnlítið, jafneinfalt og jafnauðskilið og það er. Mér er því mjög til efs að eyða þurfi miklum tíma í það. Allir umsagnaraðilar hafa tjáð sig um málið þannig að það er ekkert því til fyrirstöðu ef á annað borð er vilji fyrir því innan nefndarinnar að afgreiða málið.
    Virðulegi forseti. Ég tel að ekki þörf á því að hafa fleiri orð um þetta mál. Ég bendi aftur á það að bregðist nefndin skjótt við þarf að fylgja breytingartillaga við fjárlögin þar sem gert er ráð fyrir þessum fjárútlátum. Ef það næst ekki einhverra hluta vegna verður það að koma inn á fjárlög næsta árs.