Sjóður til að styrkja efnilega íþróttamenn

53. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 16:46:25 (2250)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Ég stend upp hér til að þakka flm. fyrir að leggja fram þetta ágæta frv. og þeim 15 ágætu afreksmönnum sem eru flm. með honum. Það eru ekki færri en 15 manns. Það eru allt afreksmenn sýnist mér.
    Mér finnst ástæða til að segja nokkur orð vegna þess að hér hefur verið talað um að ríkið leggi töluvert mikið til íþróttamála og í frv. til fjárlaga þessa árs sé reiknað með 80 millj. kr. til íþrótta. Ég segi: Hvað er það? Mér finnst það bara akkúrat ekki neitt. Það er allt of lítið. Þó svo íþróttahreyfingin fái 137 millj. kr. út úr lottóinu þá eru 200 millj. kr. samtals ekki neitt miðað við mikilvægi íþróttanna og það mikla uppeldishlutverk sem íþróttirnar gegna. Ég tel að ríkið eigi að leggja fjármuni til efnilegs íþróttafólks eins og alls annars íþróttafólks. Og þetta er ódýrasta og besta auglýsing og landkynning sem við getum hugsað okkur.
    Fyrir nokkrum dögum var hér umræða um landkynnningarmál og talað um að leggja í það einhverja tugi milljóna. Efnilegt íþróttafólk er sú allra besta landkynning sem við getum sýnt og sú allra ódýrasta.
    Menn geta talað um að við eigum heldur að efla almenningsíþróttir en ég held að afreksmenn í íþróttum efli almenningsíþróttir vegna þess að þeir draga með sér. Eftir Ólympíuleika fatlaðra í haust t.d. er verið að stofna íþróttafélög fatlaðra um allt land. Þetta er svo mikill hvati. Um síðustu helgi var t.d. verið að stofna Íþróttafélag fatlaðra á Akranesi og íþróttahúsið fylltist af fólki. Áhuginn er svo mikill. Ég tel að áhuginn sé fyrst og fremst vegna þess að fatlaða afreksfólkið okkar er búið að auglýsa þetta og hrífa með sér fólk.
    Þetta er því hið besta mál og ég mun mjög fljótlega koma með tillögu um að ríkið leggi meira til íþróttamála almennt og efli íþróttasjóð vegna þess að það er það ódýrasta sem ríkið getur gert varðandi forvarnir og langmest sparandi gagnvart ýmissi vá. Ég trúi þess vegna að aldrei sé of mikið gert fyrir íþróttirnar. Það er það ódýrasta sem ríkið leggur í og það sparast svo margt annað við það. Ég vona svo sannarlega að þetta frv. nái fram að ganga enda kostar það mjög lítið.